145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er verndarsinni og ég er nýtingarsinni. Ég bý á Íslandi og ég bý á Vestfjörðum þar sem þessir tveir kostir þurfa að spila saman. Það er ekki hægt á Vestfjörðum frekar en annars staðar á landinu að hafa náttúruna þannig að ekki sjáist að þar búi fólk eða að ekki þurfi að hrófla neitt við henni. Þannig er bara lífið í landinu. Við mundum ekki byggja Ísland ef ekki væri hróflað við einu eða neinu. Ég hef metið þau umhverfisáhrif sem þarna eru á ferðinni þannig að hagsmunir þeirrar byggðar sem er á Vestfjörðum séu meira virði, til að þar sé vænlegt að búa og styrkja byggð þar. Ég held að það yrði lítils virði að ferðast um Vestfirði ef enginn byggi þar lengur. Ég vil ekki sjá þannig Vestfirði. Við verðum líka að horfa á það og vera raunsæ og jarðbundin í þeim efnum að einhvers staðar þurfum við að virkja til þess að halda uppi eðlilegu atvinnulífi og mannlífi í landinu. Við reynum auðvitað að lágmarka allt rask og að það sé verið að raska ósnortinni náttúru, en við komumst aldrei hjá því. Þess vegna höfum við þau verkfæri sem við erum með hér í höndunum, rammaáætlun, þar sem flokkað er eftir ákveðnum stöðlum í vernd, nýtingu og bið. Verkefnisstjórn hefur sett þessa tvo kosti, Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun, í nýtingarflokk.

Ég segi hér og nú og veigra mér ekkert við að segja það að ég er náttúruverndarsinni og ég vil vernda það sem hægt er að vernda og berjast fyrir því, en í þessu tilfelli tel ég að það eigi að hugsa líka (Forseti hringir.) um hagsmuni byggðar á Vestfjörðum og tel ekki að þetta raski (Forseti hringir.) og spilli náttúru þannig að ekki eigi að virkja með Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun.