145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:34]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann til þess að endurskoða afstöðu sína gagnvart þeirri virkjun sem þarna um ræðir og a.m.k. kynna sér þá umsögn sem er frá síðasta mánuði sem er frá Umhverfisstofnun um þessa framkvæmd.

Samkvæmt 3. gr. laga nýsamþykktra laga um náttúruvernd skal stefnt að því að varðveita landslag sem er sérstætt eða fágætt eða sérlega verðmætt vegna fagurfræðilegs og/eða menningarlegs gildis, vernda vatnsfarvegi, fossa og stöðuvötn svo sem kostur er og standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Óbyggðum víðernum landsins, sem er sérstök skilgreining á landi, fer mjög fækkandi. Okkur ber að vernda þau. Okkur ber að viðhalda þeim vegna þess að ef við gerum það ekki þá verður það á endanum til þess að ekkert verður eftir sem heitir óbyggð víðerni. Mér finnst því full ástæða til þess að menn endurskoði þessi áform.

Ég fagna mjög að höfð eru uppi, í samræmi við náttúruverndarlög nýsamþykkt, mjög mikil varnaðarorð af hálfu Umhverfisstofnunar þegar kemur að þessari framkvæmd. Ég held að sú ákvörðun að setja þessa virkjun og þessa hugmynd í nýtingu á sínum tíma hafi verið tekin í allt öðru andrúmslofti, allt öðru umhverfi en við erum í núna. Núna erum við sem samfélag stödd á allt öðrum stað en bara fyrir fimm eða tíu árum. Það er ekki þannig að það sé atvinnuleysi í landinu. Það er beinlínis þannig að við erum að flytja inn fólk, við þurfum að flytja inn fólk til þess að sinna þeim störfum sem til falla. Þau rök að það sé nauðsynlegt að gera þetta og menn verði að vega og meta búskilyrði á svæðum eiga einfaldlega ekki við í dag.

Ég velti fyrir mér: Hver hagnast á þessari framkvæmd? Af hverju er ekki ástæða til þess að leyfa náttúrunni að njóta vafans? Það svæði sem um ræðir, sem eru Strandir á Vestfjörðum, er að mestu leyti ósnert, það er gríðarlega verðmætt ósnert eins og það er, (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og það er. Það er engin ástæða til þess að eyðileggja það.