145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[16:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svolítið athyglisvert, þegar farið er yfir forsögu þessa máls og forsögu virkjana í Þjórsá, að gripið hefur verið til mjög ákveðinna aðgerða til að stemma stigu við áhrifum virkjana á laxastofninn í ánni sem hefur leitt til þess að hann hefur dafnað mjög vel. Menn hafa með einhverjum hætti, sérstaklega þegar tekin var ákvörðun um Hvammsvirkjun, talið sér það til tekna; að það sé búið að gera svo mikið að þess vegna megi ganga á það sem gert hefur verið. Menn horfa algjörlega fram hjá því að það var hluti af mótvægisaðgerðum og vegna þess að það hafi tekist vel megi aðeins ganga inn á þetta. Það er laukrétt sem hv. þingmaður spyr hér um — hér er ekki búið að ganga úr skugga um það að þetta hafi ekki neikvæð áhrif á villta laxastofninn. Það er ekki búið að ganga þannig fram í þessu máli að náttúran njóti vafans, heldur væri Alþingi að taka ákvörðun án þess að vita nákvæmlega hvaða áhrif þetta hefur.

Það sem ég er að segja er: Hvers vegna ætla menn að gera þetta? Því er yfirleitt haldið fram, þegar menn tala um mikilvægi þess að ráðast í slíkar framkvæmdir, sérstaklega heimamenn, að orkan verði nýtt á heimasvæðinu. Það er blússandi stóriðja í gangi á þessu heimasvæði. Það er allt vaðandi í ferðamönnum. Það er brjáluð traffík allan ársins hring á þessu svæði. Fyrir hvað eru menn að fara að virkja? Af hverju? Hverjir eiga að vinna við þær virkjanir og við þau störf sem mikilvægt er að mati heimamanna er að verði til á þessu svæði? Mér er það gersamlega óskiljanlegt að menn skuli fara þannig fram og nýta ekki (Forseti hringir.) tímann núna til þess að fara vel yfir ferlið til þess að skoða allar mögulegar upplýsingar, öll möguleg áhrif.