145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði nú viljað halda áfram samtali mínu við hv. 6. þm. Reykv. s., að 5. þm. Suðurk. algjörlega ólöstuðum og þakka honum fyrir ræðuna. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að einhver teldi þetta ekki vera lögformlegt ferli. Ég verð að viðurkenna að ég hef aðeins skroppið hérna fram af og til en ég hef ekki tekið eftir því að umræðan í dag hafi snúist um það hvort þetta væri lögformlegt ferli eða ekki, ég hef ekki heyrt neinn ágreining um það. Helsti ágreiningurinn sem ég hef heyrt í dag hefur fjallað um það í hvaða nefnd málið eigi heima, þ.e. hvort málið eigi heima í hv. atvinnuveganefnd eða hv. umhverfis- og samgöngunefnd, ekki síst vegna orða hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, síðast þegar við vorum að bítast um þessi mál.

Ég vil halda því til haga að ég er alveg sammála því að við þurfum að hafa eitthvert lögformlegt ferli í kringum þessar ákvarðanatökur, ferli sem ríki sátt um og vek athygli á því að ég hef ekki séð miklar mótbárur við þetta mál í dag þótt fólk hafi auðvitað sínar skoðanir á einstaka kostum, til að mynda ég. Ég er á móti Urriðafossvirkjun og verð það áfram ásamt hv. 6. þm. Reykv. s., Róberti Marshall. En það hlýtur samt að vera eitthvert svigrúm fyrir hina svokölluðu pólitíska togstreitu. Ég spyr vegna þess að ég á í vandræðum með þetta sjálfur, langar að heyra meira frá hv. þingmanni um það. Ef þetta ferli á vera einfaldlega þannig að við stimplum allt hér í gegn þá veltir maður auðvitað fyrir sér hvað við erum að gera hérna og tala um þetta. Ef við ætlum að breyta þessu þá setjum við allt í háaloft vegna þess að við ætluðum að búa til þetta lögformlega ferli sem væri sátt um, sem auðvitað hefur verið brestur á, burt séð frá því hverjum það var að kenna hverju sinni í gegnum tíðina.

Eigum við ekki að ræða þessa (Forseti hringir.) pólitísku togstreitu sem hlýtur að vera til staðar gagnvart einstaka kostum? Eða er það ekki hlutverk okkar á hinu háa Alþingi bara af því að þetta er lögformlegt ferli?