145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þarna kemur kannski að því sem við hv. þingmaður erum ósammála um. Við erum með ferli, í umhverfismati eru ekki teknar neinar ákvarðanir, það er bara bent á hver hættan sé og hver hættan sé ekki. Það á síðan að nýta, verði gert nýtt umhverfismat sem við vitum ekkert um. Síðan er gefið út leyfi. (Gripið fram í.) Við getum ekki bundið hendur þess sem veitir leyfið. Þá kemur að því sem við hv. þingmaður erum ekki sammála um, það er ábyrgð okkar sem hér sitjum og ábyrgð hæstv. ráðherra sem er ekki aðeins kjörinn fulltrúi heldur líka embættismaður með tiltekið verksvið, sem ber ekki aðeins ábyrgð á því að lögformlegum ferlum rammaáætlunar sé fylgt heldur líka því að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika.

Mér finnst að við sem þingmenn og kjörnir fulltrúar þurfum að taka það alvarlega þegar á það er bent að þessi óvissa sé uppi. Við þurfum þá að taka ákvörðun með augun opin um að við séum tilbúin að taka áhættuna (Forseti hringir.) af þeirri óvissu, að við ætlum bara að skjóta þeirri ábyrgð annað eins og hv. þingmaður sagði hér í andsvari, að það sé einhver annar sem geti bara tekið þá ábyrgð.