145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var meistaralegt svar. Ég varpaði einfaldri spurningu til hv. þingmanns og hún sveiflaði sér út á ísinn eins og hún væri Ólympíumethafi í skautum, í listskautum jafnvel. Ég held hún hafi fleygt til mín fleiri spurningum en mér tókst að koma fyrir í mínu svari, en það er allt í lagi. Ég var svona að velta fyrir mér hvort mínir góðu vinir í VG hefðu ákveðið að setja þessa þingsályktunartillögu á. Það væri ávinningur í því en ákveðnir gallar líka. Ég hef miklar efasemdir um að hægt sé að verja það að sippa þessu í gegnum þingið á síðustu dögunum án þess að skoða það mjög rækilega. En ég ætla ekki að ítreka spurningu mína eða pína mína góðu stallsystur í VG neitt frekar með þessu máli.

Hv. þingmaður, sem er mjög skilningsrík eins og ég veit af nánu samstarfi við hana og ég veit líka hvað henni er tamt að fyrirgefa þeim sem hafa jafnvel á síðustu dögum orðið kannski misdægurt með orðum sínum, sagði hér áðan, herra forseti, að hún skildi vel að ráðherra vildi leggja þetta mál fram. En eigum (Forseti hringir.) við að sitja hérna bara til að einhverjir ráðherrar geti náð fram málum sem (Forseti hringir.) hugsanlega er enginn möguleiki að ná í gegn? Ég vil fara að komast í kosningabaráttu. (Forseti hringir.) Að öðru leyti lýsi ég skilyrðislausri (Forseti hringir.) ást minni á VG.