145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði inn á svipaða sálma. Nóttin er ung eins og sagt er og þessi þingfundur getur alveg staðið til miðnættis samkvæmt þingsköpum. En eftir stendur að ég sé ekki fram á að nægur tími sé til stefnu það sem eftir er af þessu þingi, alla vega miðað við gildandi starfsáætlun, til að ljúka þessu máli. Þá velti ég fyrir mér vegna þess að ég verð ekki hérna á næsta þingi, né heldur hv. 6. þm. Reykv. s. en við vorum áðan að tala um það að ef þingmenn hefðu raunverulega séð þá staði sem um ræðir þá hefði það kannski áhrif á álit þeirra. Við vorum sérstaklega að ræða Urriðafoss sem okkur er báðum mjög annt um. En ég velti fyrir mér, ef nægur tími væri til stefnu, ef við værum að hefja þing eins og við ættum að vera að gera, hvernig væri hægt að koma þessum fagurfræðilega þætti að í þingferlinu með öllum þeim tíma sem þyrfti, þætti sem er ekki faglegur á neinn hátt því eins og ég hef sagt áður þá sér maður Urriðafoss og finnst það galið að einhver vilji virkja hann. Ég hef í sjálfu sér ekki sterkari rök en það, mér finnst bara galið að virkja hann.

Ég held að eina leiðin til þess að þingmenn geti farið út í þá sálma sé með því að upplifa svæðið á einhvern hátt. Jú, það er hægt að skoða loftmyndir, skýrslur, greinar og marglit gröf og allt þetta, en það er varla raunhæft að allur þingheimur sjái staðinn sjálfan, jafnvel ekki öll nefndin, til þess að geta dregið slíkar ályktanir einfaldlega út af fjölda tillagna eða virkjunarkosta, nema ef þeir væru takmarkaðir við þá sem eru settir í nýtingarflokk.

Ég velti fyrir mér hvort við getum gefið einhver skilaboð fyrir næsta þing og næsta kjörtímabil miðað við þann stutta tíma sem við höfum um það hvernig þingmenn geti komið að þessum fagurfræðilega þætti, að því gefnu að við hefðum tíma sem við höfum klárlega ekki. Ég spyr vegna þess að ég held að við höfum ekki tíma til að klára þetta hér.