145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef alltaf sagt það að EES-samningurinn er einn mikilvægasti viðskiptasamningur sem þjóðin hefur gert. Í kringum 80% af öllum okkar útflutningi fer á það svæði þannig að auðvitað skiptir fjórfrelsið okkur miklu máli. Ég hef verið því afskaplega hlynnt.

Varðandi það efni sem ég mæli fyrir í þessari þingsályktunartillögu þá er ég mjög hlynnt því. Ég er mjög hlynnt því að við tökum inn tvær tilskipanir um opinber innkaup sem tryggja hvað? Jú, aukið gagnsæi, jafnt aðgengi og aukna samkeppni um opinbera samninga á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég held að það fyrirkomulag sem við búum við er varðar EES-samninginn hafi hentað Íslandi mjög vel. Ég vil líka nefna það sem við höfum verið að gera núna á vettvangi ríkisstjórnarinnar, við höfum verið með ákveðinn hóp sem hefur verið að flokka þessar tilskipanir, ákvarðanir og reglugerðir út frá mikilvægi þeirra og lagt meiri vinnu í þær tilskipanir sem varða okkar hagsmuni meira en aðrar. Mér finnst mikilvægt að leggja á það áherslu að EES-samningurinn skiptir okkur máli vegna þeirra viðskiptalegu hagsmuna sem eru í húfi fyrir þjóðarbúið.