145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:16]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta er athyglisverð umræða sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson bryddar hér upp á. Hann er að velta því fyrir sér með hvaða hætti við getum haft áhrif á innihald þeirra gerða sem eru samþykktar úti í Evrópu og við þurfum samkvæmt EES-samningnum að taka upp. Hér áður fyrri höfðum við óbeina möguleika til að hafa töluverð áhrif ef við á annað borð gátum komist að því að einhvers konar galla væri að finna á gerð sem varðaði Ísland. Á þeim tíma var framkvæmdastjórnin nánast allsráðandi og réði öllu og nálægt henni var hægt að koma íslenskum sjónarmiðum að. Síðan hefur ferlið sem ræður ákvörðunum gjörbreyst innan Evrópusambandsins, þ.e. þingið hefur fengið miklu meiri völd en áður. Það er sérstakt lögskipað ferli um samráð sem á að leiða til niðurstöðu. Ef enn er ágreiningur þegar því er lokið þá er það í reynd Evrópuþingið sem ræður. Í dag höfum við hins vegar enga aðkomu að því þar sem við erum ekki í Evrópusambandinu og eigum ekki þingmenn þar.

Mig langar, af því að hv. þingmaður er pælari, hefur gaman af að velta fyrir sér hlutum, að benda honum á leið sem ég hef stundum tekið hér upp í umræðum um það hvernig hægt er að undirstrika og auka áhrif Íslands. Það er þannig að allir flokkahópar sem eiga sæti á Alþingi eiga sér systurflokka á þinginu, líka að ég hygg Píratar. Það hefur alltaf verið gott samstarf á millum einstakra þingflokka hér og systurþingflokka úti í Evrópuþinginu. Í sumum tilvikum eins og í tilviki Samfylkingarinnar er standandi boð um að fá að taka varanlega þátt í störfum þeirra þingflokka. Okkar flokkur hefur nýtt sér það að því marki að við höfum starfslegt samband við þá. Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að slá í gadda áhrif, þegar kemur að stórmálum sem þingið ákveður og þarf að hafa sterk áhrif á niðurstöðu í, sé fólgin í því að þingflokkarnir komi sér upp starfslegum tengslum og hefðu hugsanlega fulltrúa sem sætu reglulega fundi þingflokkanna í Evrópuþinginu. Þá hefur reynslan sýnt að yfirleitt eru allir stjórnmálaflokkarnir sammála um það sem varðar íslenska hagsmuni. Þeir mundu geta, í gegnum sína þinghópa á Evrópuþinginu, komið sínum málum fram. Þetta gæti skipt verulega miklu máli, hefði til dæmis skipt máli varðandi bann Evrópusambandsins við notkun tiltekinna aukefna í saltfiski sem okkur tókst með ærnu erfiði og miklum barningi, og reyndar með samstarfi þingsins og framkvæmdarvaldsins, að yfirvinna. Það er reyndar eina skiptið sem ég man eftir því að þingið og framkvæmdarvaldið hafi unnið saman að því að útrýma tálma í vegi viðskipta.

Aftur að því máli sem hér liggur fyrir, sem er hið besta mál. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson velti því fyrir sér hvort allar EES-gerðir væru góðar. Flestar eru það. Félagsleg réttindi á Íslandi eru miklu meiri vegna aðildar okkar að EES. Þetta mál er enn eitt dæmi um það hvernig réttindum er að þoka fram, t.d. réttindum lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í því máli sem við samþykkjum hér er verið að draga stórlega úr skrifræðisfargani, þ.e. ef um er að ræða ákveðna tegund útboða sem í þessari gerð er kölluð samkeppnisútboð. Þá þarf kannski, til þess að koma tilboði fram, að vera búið að leggja fram fjölmörg vottorð sem lítil fyrirtæki geta einfaldlega ekki, vegna smæðar sinnar, lagt kostnað og vinnu í að verða sér út um; vottorð sem þarf í dag, að þessu ósamþykktu, til þess að komast inn í tilboðsgjöfina. Í frumvarpinu er í reynd sett upp regla sem er þannig að fyrirtækin þurfi ekki að útvega þessi vottorð og leggja fram hin og þessi gögn fyrr en komið er að tilboðsvalinu sjálfu og ljóst er að þau hafa mikla möguleika á að ná málinu. Þetta er eitt dæmi um fjölmarga þætti sem frumvarpið varðar.

Það sem ég vildi segja lýtur að upphafsmáli hæstv. ráðherra sem sannferðuglega greindi frá því að utanríkisráðuneytið — að þessu sinni sökum tímapressu sem það upplifði og óvissu um lyktir þingsins — hefði reynt að fá þingið til að beita áður óreyndri reglu sem ég er ekki alveg sannfærður um að sé jafn rækilega til í veruleikanum og ráðuneytið telur, þ.e. að samþykkja afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara án þess að málið komi fyrir þingið. Sameiginlega EES-nefndin hefur möguleika til að taka ákvarðanir sem binda Ísland að þjóðarrétti. En ef um er að ræða ákvarðanir sem leiða til breytinga á lögum þá er samkvæmt stjórnarskránni, eins og við öll höfum skilið hana, ekki hægt að gera það nema með sérstökum fyrirvara af þessum stjórnskipulega tæknilegu ástæðum. Þetta er hinn stjórnskipulegi fyrirvari. Enginn á að geta aflétt honum nema Alþingi Íslendinga.

Það var þess vegna sem ég og fleiri í utanríkismálanefnd brugðumst ekki vel við málaleitan utanríkisráðuneytisins til þess að sneiða hjá þinginu, vegna þess að í því fælist fordæmi sem ég er sannfærður um, í krafti reynslu minnar af kansellíinu, að mundi verða notað aftur og hugsanlega oftar. Það vil ég ekki. Ég tel að það geti enginn og megi enginn aflétta stjórnskipulegum fyrirvara nema Alþingi sjálft. Ráðuneytinu var bent á að tími væri til þess að koma þessum málum fyrir þingið. Ég fyrir mitt leyti sagði í nefndinni og segi það enn og aftur hér: Þetta er miklu hreinlegri aðferð fyrir alla aðila. Þess vegna lýsti ég því yfir þá og geri aftur hér að ég tel að þingið eigi að samþykkja þetta mál með hraði og mun leggja minn atbeina að því að það verði gert. Það var yfirlýsing sem ég gaf fyrir hönd míns flokks. Ég er því þeirrar skoðunar að þetta mál eigum við á þinginu að afgreiða eins hratt og fljótt og við getum og áður en þingi slotar.