145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2016 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

864. mál
[19:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert markmið í sjálfu sér séð frá mínum sjónarhóli að ganga í Evrópusambandið bara til þess að vera partur af því. Innganga í Evrópusambandið er tæki til þess að ná ákveðnum markmiðum. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að umræðunni um það síkvika samband verður sennilega aldrei lokið. Það er ekki endilega þannig að menn séu ólmir í að taka upp þessar gerðir, eins og við höfum orðið vitni að í umræðum hér á síðustu árum. Það eru margir því afskaplega andsnúnir, m.a. sá þingmaður sem stakk hér höfðinu í gættina áðan, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hann kallaði þetta alltaf, þegar viðræðurnar voru í gangi, aðlögunarviðræður. En eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson benti á eru Íslendingar eða hið íslenska þing nánast á hverjum degi að taka upp nýjar og nýjar aðlaganir að Evrópusambandinu, þ.e. innleiðing allra þessara gerða. Þá eru ótaldar þeir tugir ef ekki hundruð gerða sem á hverjum mánuði eða á hverju missiri eru teknar upp án þess að lagabreytingar þurfi við. Við erum með öðrum orðum stöðugt að aðlaga okkur regluverki ESB.

Mig langar aðeins að drepa á það sem hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu sem laut að því að fyrr eða síðar kæmum við að þeim punkti að stjórnarskráin þyldi ekki meira. Það eru mörg dæmi um það frá allra síðustu árum þar sem við erum að framselja vald sem vafasamt er að stjórnarskráin heimili. Ég nefni t.d. í nokkrum málum að framselja sektarheimildir úr landi. Það er bókstaflega óheimilt samkvæmt stjórnarskránni. Þá hafa stjórnskipulegir sérfræðingar bent á að í hvert skipti sé um að ræða lítið afmarkað svið. En þegar við leggjum saman þessi mörgu litlu afmörkuðu svið þá er það mín skoðun að við séum komin út yfir þetta gráa svæði. EES-samningurinn og stjórnarskráin ríma ekki lengur. Leiðirnar til þess að bæta úr því eru tvær, annars vegar að ganga í Evrópusambandið eða þá (Forseti hringir.) að breyta stjórnarskránni þannig að það færi ríkinu og þinginu heimild til þess að (Forseti hringir.) framselja vald til yfirþjóðlegra stofnana. Það er varla um aðrar leiðir að ræða.