145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er sönn ánægja að vera hér í kvöld og mæla fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Vænti ég að tillaga þessi njóti víðtæks stuðnings þingsins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af hálfu Íslands 30. mars 2007. Síðan þá hafa 166 ríki fullgilt samninginn.

Markmið samningsins er að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Full þörf er að ljúka við að fullgilda samninginn enda hefur Ísland þegar með undirrituð gengist undir það að virða meginreglur hans. Óumdeilt er að fullgilding samningsins muni marka mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðs fólks.

Með því að fullgilda samninginn virkjum við tvíþætt eftirlitskerfi hans, annars vegar alþjóðlegt eftirlit, sem fram fer með skýrslugjöf til sérfræðinganefndar, og hins vegar eftirlit innan lands með því að koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun. Hefur innanríkisráðherra unnið frumvarp þess efnis að koma á fót slíkri stofnun sem fullnægir svokölluðum Parísarviðmiðum sem tryggja eiga sjálfstæði slíkra stofnana. Sú stofnun er ekki bundin við framkvæmd þessa samnings heldur á hún að hafa eftirlit með framkvæmd mannréttindasamninga og skuldbindinga Íslands.

Með þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014, sem samþykkt var í júní 2012, ályktaði Alþingi að ljúka skyldi vinnu við aðlögun íslenskrar löggjafar með ákvæðum samningsins á árinu 2013. Undirbúningur fullgildingar tók hins vegar lengri tíma en áætlað var.

Þegar hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf til undirbúning fullgildingar samningsins. Þar má nefna að á árinu 2011 samþykkti Alþingi lög um réttindagæslu fatlaðs fólks m.a. með hliðsjón af 12. gr. samningsins. Þá má einnig nefna breytingar á lögræðislögum, lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna. Enn fremur hefur sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verið lögfestur. Frá árinu 2011 hafa verið starfrækt tilraunaverkefni um notendastýrða aðstoð á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV við lög um málefni fatlaðs fólks. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skal festa ákvæði um notendastýrða aðstoð í lög fyrir árslok 2016.

Þá er stór hluti þeirra skyldna sem lagðar eru á ríki samkvæmt samningnum í formi aðgerða sem ekki eru háðar lagabreytingum. Má þar nefna vitundarvakningu, þjálfun og fræðslu. Við fullgildingu verður hægt að hefjast handa við fjölda verkefna á þeim sviðum.

Þá kveður eftirlitskerfi samningsins á um starfsemi nefnda á vegum Sameinuðu þjóðanna og skýrslugjöf til hennar um framkvæmd samningsins sem er mikilvægur spegill á störf stjórnvalda og mikilvægur vettvangur fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Við fullgildingu samningsins virkjast þetta eftirlitskerfi.

Loks er það viðverandi verkefni stjórnvalda að þróa og útfæra réttindi sem samningurinn kveður á um óháð einstaka lagabreytingum. Fullgilding samningsins kallar hins vegar á nokkrar frekari lagabreytingar til að íslensk löggjöf sé að fullu aðlöguð að ákvæðum hans. Lög um þjónustu við fatlað fólk og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þarf m.a. að breyta til samrýmis við ýmis ákvæði samningsins og skerpa á samspili þeirra. Er stefnt að leggja frumvarp fram á komandi vetri sem mætir þeim atriðum sem enn standa út af.

Þá er í undirbúningi frumvarp til laga við bann við mismunun og frekari frumvörp til að mæta skuldbindingum samningsins.

Hv. forseti. Með þessum orðum hef ég mælt fyrir þingsályktunartillögu um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar.