145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að það væri henni sönn ánægja að flytja þessa tillögu til þingsályktunar og hún vænti þess að tillagan nyti víðtæks stuðnings hér í þinginu. Já, ég held að svo sé.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sem flytur þessa tillögu. Tillögugreinin er nær óbreytt frá þeirri tillögu sem ég er 1. flutningsmaður að og var lögð fram á Alþingi 6. október 2015. Hún hefur verið til umfjöllunar í velferðarnefnd, gestir hafa komið til fundar við nefndina, umsagnir hafa verið sendar o.s.frv., allt saman eins og lög gera ráð fyrir ferli þingsályktunartillagna á Alþingi.

Var hæstv. utanríkisráðherra kunnugt um þingsályktunartillögu mína? Var það rætt í ríkisstjórn þegar hún fór með þessa tillögu inn að nákvæmlega eins tillaga lægi fyrir þinginu, að vísu frá minni hluta þingsins? Ég vil ekki kalla mig stjórnarandstæðing í þessu máli, ég sit í minni hluta. Hvers vegna ákvað bara ríkisstjórnin ekki að láta þá tillögu sem ég og 12 aðrir þingmenn erum flutningsmenn að, ganga í gegnum þingið? Þá gætum við þess vegna samþykkt þá tillögu á morgun? Hér leggur hæstv. utanríkisráðherra fram nákvæmlega eins orðaða tillögu og í raun er greinargerðin keimlík líka, en tillagan á að ganga til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég held að sú tillaga geti ekki klárast á þeim dögum sem eftir eru af þinginu.

Virðulegi forseti. Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra þessara spurninga. Er það kannski þannig að ríkisstjórnin er það smá í hugsun að hún getur ekki hugsað sér að samþykkja (Forseti hringir.) tillögu frá minni hlutanum?