145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[19:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér dettur ekki í hug að gera nokkra einustu athugasemd við að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé fullgiltur án þess að búið sé að fara í allar þær lagabreytingar sem taldar hafa verið upp og liggur fyrir að fara þarf í. Mér dettur það ekki í hug. Mér finnst það hins vegar óskaplega sérstakt að þetta mál komi fram akkúrat núna vegna þess að við höfum lungann úr kjörtímabilinu verið að kalla eftir þessari fullgildingu og kallað eftir því að vinnunni sé hraðað. Það er mjög sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að vegna þess hversu hægt hefur gengið var flutt þingmannamál um að klára fullgildinguna.

Ég sé ekki betur en að þetta mál sé núna á lokadögum þessa þings því miður að fara í þá átt að hæstv. ríkisstjórn vilji geta eignað sér málið. Hæstv. ríkisstjórn vill geta kvittað fyrir það að hún hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er auðvitað rosalega gott að geta farið inn í kosningabaráttu með það á ferilskránni. Ég mun styðja það að þessi samningur verði fullgiltur vegna þess að það skiptir máli efnislega fyrir alveg fullt af fólki úti í samfélaginu. En mér finnst dapurlegt ef klára á málið á síðustu dögum þingsins þegar það liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur að öðru leyti gert (Forseti hringir.) óskaplega lítið fyrir fatlað fólk, t.d. þegar kemur (Forseti hringir.) að framfærslu þeirra sem þurfa að reiða sig (Forseti hringir.) á almannatryggingakerfið og örorkubætur.