145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:10]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að það er mikill gleðidagur í dag þegar samningurinn er lagður fram til fullgildingar. Ég segi það vegna þess að ég var staddur hér um daginn þegar Stoltgangan var gengin, þegar fundur fólksins var úti við Norræna hús og fleiri hundruð manns gengu. Þá kvisaðist það út að búið væri að ákveða það innan ríkisstjórnarinnar að leggja það fram að fullgilda þennan samning. Það var almenn og mikil gleði með það. Ég held að við ættum ekkert að fara í neina pissukeppni um það hver hefur lagt þetta mál fram áður eða hvernig sem það er. Það hefur verið rætt um tillöguna sem var vissulega lögð fram af minnihlutaþingmönnum og fór til velferðarnefndar til umræðu. Við fengum fullt af gestum til að fara í gegnum málið, vítt og breitt. Þar var m.a. bent á það sem kom fram í sumum umsögnum, t.d. frá Tabú sem er femínísk hreyfing sem einbeitir sér sérstaklega að því að verja réttindi fatlaðs fólks og þá einkum kvenna, sem er sá hópur sem hefur mátt mæta mestri kúgun og mismunun í heiminum, sennilega er enginn annar hópur fólks sem hefur orðið fyrir öðru eins ofbeldi og fatlaðar konur. Þær benda m.a. á það í umsögnum sínum að það hafi verið lögð fram tillaga þess efnis og það kemur fram í skýrslu sem velferðarnefnd lagði fyrir ríkisstjórnina í framhaldi af málinu sem var lagt fram og hv. þingmenn hafa nefnt. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur 13. desember 2006 með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 61/611. Hann var lagður fram til undirritunar 30. mars 2007 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag. Samningurinn tók svo gildi 3. maí 2008 þegar 20 ríki höfðu fullgilt hann. 11. júní 2012 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013.

Nú er langt liðið á árið 2016 og enn hefur samningurinn ekki verið fullgiltur. Nefndin telur óforsvaranlegt að svo langt hafi liðið frá samþykkt framangreindrar þingsályktunar án fullgildingar og lítur svo á að stjórnvöld hafi ekki staðið sig sem skyldi í þessum mikilvæga málaflokki.“

Og þá er hægt að tala um fleiri stjórnvöld en sem nú eru. Þetta hefur dankast í kerfinu allt of lengi.

Ég held áfram að vitna í þessa skýrslu:

„Í ljósi þess að Alþingi hefur nú þegar samþykkt að fullgilda beri samninginn telur nefndin ekki þörf á að samþykkja þingsályktunartillögu þessa en beinir því til stjórnvalda að fullgilda samninginn án tafar og fylgja fullgildingunni eftir með lögfestingu hans, líkt og gert hefur verið með mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins með lögum, sbr. lög nr. 19/2013.“

Þannig liggur í þessu máli. Ég held að þeir sem lögðu fram tillöguna í haust, hv. þm. Kristján L. Möller og fleiri, geti verið stoltir af því. Ég held að það hafi nefnilega gert það að verkum að verið er að leggja þetta mál fram núna eftir afgreiðslu frá velferðarnefnd. Ég held að ekki sé á neinn hallað þótt ég segi að af þeim sem komu til okkar í nefndinni eigi Tabú og málflutningur þeirra stærstan þátt í því að þetta var lagt fram, málflutningurinn var einstakur og skildi alla eftir orðlausa. Það fór ekkert á milli mála að ef við ætluðum að teljast til siðaðra og góðra landa þá yrðum við að samþykkja þennan samning og lögfesta sem fyrst.

Eins og ég nefndi áðan var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valflrjálsa bókun hans undirritaður fyrir Íslands hönd 2007. Síðan eru liðin níu ár og enn hefur hann ekki verið fullgiltur né lögfestur þrátt fyrir skýra stefnu um það í framkvæmdaáætlunum og löggjöf í tengslum við réttindi fatlaðs fólks. En nú hefur hæstv. utanríkisráðherra lagt fram stjórnartillögu um fullgildingu samningsins strax og því ber að fagna. Það er það sem við ættum að gera í dag, og alltaf, að fagna því mjög mikið og líta á það sem upphaf að einhverju stórkostlegu í málefnum og lífi fatlaðs fólks.

Það hefur náttúrlega verið unnið að fullgildingu samningsins og ákveðnu fjármagni verið varið í þetta verkefni frá upphafi og undirritun. Það má gera athugasemdir við margt í því ferli, t.d. er þýðingarvinnan enn þá ófullnægjandi. Umdeilt er hvort þær lagabreytingar og kerfisbreytingar sem farið hefur verið í í því skyni að fullgilda séu marktækar og í samræmi við ákvæði samningsins. Þetta hefur Tabú m.a. bent á og í umsögn þeirra eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við þýðingu samningsins á íslensku þar sem í mörgum tilfellum virðist reynt að draga úr skyldu ríkisins á kostnað mannréttinda fatlaðs fólks. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða mjög alvarlega því að þær gera mjög mikla kröfu til þess að þetta verði lagað. Við gerum það líka.

Rót þessa vanda er í rauninni augljós og kemur inn á aðra brotalöm í ferlinu og það er skortur á raunverulegu samráði við fatlað fólk. Því þarf að taka alvarlega og gera bót á. Það er algert lykilatriði og hefur alltaf verið að þessi vinna á að fara fram í fullu samráði og samvinnu við fatlað fólk, þ.e. við þau sem málið fjallar um. Við getum hins vegar ekki látið fatlað fólk bíða lengur eftir öruggari réttarstöðu og vernd gegn því misrétti sem er hversdagslegur veruleiki þess. Eins og ég nefndi áðan er um að ræða einn stærsta minnihlutahópinn sem er hvað mest jaðarsettur á heimsvísu. Það kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan.

Við í Bjartri framtíð styðjum því heils hugar að samningurinn verði fullgiltur fyrir þinglok núna og með það fyrir augum að fram undan sé mikið verk að vinna, bæði lagalega innan stjórnsýslunnar og í samfélaginu öllu við að hrinda þessum alþjóðlegu skuldbindingum í framkvæmd.

Ég hjó eftir því og það hefur verið nefnt að eitt af því sem þyrfti að gera til að fullgilda þennan samning væri að leggja fram frumvarp um bann við mismunun. Nú eru nokkrir dagar í það að ár sé liðið síðan Björt framtíð lagði fram frumvarp akkúrat þess efnis. Það er alveg hreint með ólíkindum að það hafi ekki fengið brautargengi á þingi, því að það var lagt fram sérstaklega til þess að hjálpa við innleiðingu samningsins. Það var lagt fram af Freyju Haraldsdóttur, sem er varamaður fyrir Bjarta framtíð. Ég mælti fyrir málinu fyrir hennar hönd í mars en það hefur ekki fengið neina umræðu í nefnd og hefur bara verið látið liggja, þótt það sé mjög mikilvægt að þetta mál komi fram af því að það þarf að breyta þessum lögum. Því veltir maður fyrir sér: Hvað er á bak við? Af hverju er þetta ekki gert?

Það er eins og það er, það er kannski eignarhald á frumvörpum og hugmyndum sem tefur oft þingstörf. Eins ótrúlegt og það hljómar rífast menn endalaust í pólitík á Íslandi um eignarhald á hugmyndum eða tillögum eða frumvörpum. Það er alveg hreint ævintýralega fáránlegt. Á meðan bíður fólk úti í samfélaginu og getur ekkert gert. Við erum náttúrlega fulltrúar fólksins og leggjum þetta fram að beiðni þess.

Við teljum líka mikilvægt að valfrjálsa bókunin verði fullgilt. Ég minni enn og aftur á að öll þessi vinna verður að vera leidd af fötluðu fólki og unnin með fullri aðkomu þess, eins og samningurinn sem um ræðir kveður á um. Þar er nefnilega kveðið um það mjög skýrt að öll sú vinna sem viðkemur þessum samningi og innleiðingu hans, og þegar verið er að ræða um fatlað fólk, eigi að vera í samráði við fatlað fólk og það á að leiða vinnuna. Ef við gerum það komum við í veg fyrir frekari brotalamir og tafir á komandi ferli.

Síðast en ekki síst leggjum við áherslu á og styðjum og tökum undir þá kröfu fatlaðs fólks að samningurinn verði lögfestur strax. Ég held að það sé algjört lykilatriði. Það var talið nauðsynlegt á sínum tíma að lögfesta barnasáttmálann svo að hann öðlaðist raunverulega þýðingu fyrir réttarstöðu barna. Teljum við það sama gilda um réttarstöðu fatlaðs fólks. Reynsla þess og íslenskar rannsóknir á því sviði sýna einfaldlega fram á að jaðarsetning fatlaðs fólks er svo alvarleg að grípa verður til róttækra aðgerða til að snúa þeirri þróun við. Þessi valfrjálsa bókun tengist náttúrlega möguleikum fatlaðs fólks til þess að geta kært slugshátt hér á landi til Mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna. Þetta er líka lykilatriði hvað varðar eftirlit með íslenska ríkinu og möguleika fatlaðra til að koma málum áfram ef þau stoppa hér, ekki síst í ljósi þess að við erum dálítið eftir á hvað varðar réttindagæslu fatlaðs fólks á Íslandi.

Enn og aftur segi ég það að ég gleðst yfir þessu máli og mun ekki tefja framgang þess, það er alveg ljóst. Ég vona svo sannarlega að við náum að klára þetta fyrir þinglok þótt það megi alveg spyrja sig af hverju þetta komi svona seint. Ég tel að það sé vegna þess sem ég nefndi fyrst, það er skýrsla frá velferðarnefnd vegna þingsályktunartillögu minnihlutaþingmanna sem ýtti á að þetta var gert. Því ber svo sannarlega að fagna.