145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir hennar ræðu hér og eins þegar við fluttum tillögu okkar. Hún er einn af flutningsmönnum tillögunnar sem ég er 1. flutningsmaður að og hefur verið gerð að umtalsefni og vil ég þakka henn enn einu sinni fyrir að bera þessi mál eins vel hér inn til Alþingis og hún hefur gert.

Ég vil aðeins segja það, virðulegi forseti, og er hálfpartinn að misnota andsvar, að ég vil leita leiða til að ljúka þessu máli áður en við förum heim, áður en þessu þingi lýkur, lausnamiðaður. Við frekari skoðun á þessu máli tel ég í fyrsta lagi að málið eigi að ganga til utanríkismálanefndar samkvæmt þingsköpum. Um er að ræða staðfestingu á alþjóðasamkomulagi og það er líkt og gert var varðandi Parísarsamkomulagið sem hæstv. utanríkisráðherra flutti ekki alls fyrir löngu.

Ég spyr þingmanninn hvort við sem flutningsmenn og áhugamenn um að staðfesta þessa þingsályktunartillögu ættum að leita lausna — og ég segi þetta vegna þess að tveir ef ekki fleiri þingmenn, og meðal annars flutningsmenn að minni tillögu, eiga sæti í utanríkismálanefnd — og nýta okkur innsend erindi og gestakomur í velferðarnefnd og leita eftir áliti frá velferðarnefnd til að hraða þessu í gegn. Það sem ég óttaðist við allsherjar- og menntamálanefnd er að þá færi málið í hefðbundið umsagnarferli og nýtt ferli. Við eigum að geta nýtt okkur þau gögn sem þar eru fyrir.

Ég spyr hv. þingmann hvort við sem umbjóðendur eða flutningsmenn að tillögunni — áhugamenn eins og allir þingmenn eru um að staðfesta þessa tillögu sem fyrst og samþykkja — getum ekki sameinast um að þessi leið verði farin með ósk um að utanríkismálanefnd bretti upp ermar og klári þetta „en-to-tre“, svo að maður sletti aðeins.