145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:38]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu vil ég alltaf vera lausnamiðuð og hvað þá þegar um er að ræða mál sem eru mér hjartans mál. Ég verð að viðurkenna að þá verð ég enn lausnamiðaðri en ég er dags daglega. Mér finnst það góð tillaga hjá hv. þingmanni að þetta fari til utanríkismálanefndar. Ég er alveg sammála því að auðvitað á að nota þá vinnu sem þingið hefur farið í, hv. velferðarnefnd í þessu tilviki, til að leita umsagna um samninginn. Skárra væri það nú. Það eru næg verkefni sem við höfum hérna þó svo að við förum ekki að gera okkur það að leik að vinna málin upp oftar en við þurfum að gera.

Ég verð að viðurkenna að ég er kannski ekki nógu góð í því ferli hvort mannréttindasáttmálar fara stundum aðra leið í gegnum þingnefndir Alþingis en önnur þau þingmál sem eru á þess könnu og lúta að utanríkismálum. En í utanríkismálanefnd erum við alltaf að takast á við eitthvað sem hæstv. ráðherra hefur gert í umboði Íslands og með stjórnskipulegum fyrirvara. Þannig að ég get ekki séð hvað ætti að koma í veg fyrir að þessi leið sé farin. Það er jú einhverra hluta vegna hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) sem mælir fyrir málinu.

Jú, mér finnst það góð hugmynd og held (Forseti hringir.) einmitt að hún geti orðið til þess að við getum klárað þetta mikilvæga mál á þessum örfáu dögum.