145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara koma upp í þessu síðara andsvari til að undirstrika að ég mun leggja mig fram um það að þar sem ég get komið að málum — ég á jú sæti í hv. utanríkismálanefnd og þar mun ég vinna að því að við getum klárað þetta mál og að við getum fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þó svo að ég hafi gagnrýnt það hvað málið kemur svolítið skringilega inn í þingið og búið sé að kalla eftir þessu lengi, þá er málið einfaldlega þannig að ég held að allir muni greiða atkvæði með því að við fullgildum samninginn. Það skiptir svo miklu máli fyrir fatlað fólk að við klárum þetta. (KLM: Það þolir ekki frekari bið.) Það þolir ekki frekari bið, líkt og hv. þingmaður segir. Fullgilding Íslands á þessum samningi mun ekki gera það að verkum að smjör drjúpi hér af hverju strái og að fatlað fólk muni ekki mæta neinum hindrunum í samfélaginu. Það er ekki þannig. Baráttumálin verða áfram fjölmörg og hindranirnar sem eru í vegi fatlaðs fólks verða þar áfram, en það verður þá hægt að taka næstu skref og einhenda sér í næstu áfanga í baráttunni sem eru líka mjög mikilvægir.