145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir góða og innihaldsríka ræðu um þetta mikilvæga málefni, sem maður er svo meðvitaður um að er þingmanninum hjartans mál miðað við málflutning hennar í gegnum tíðina hér á þingi og tilraunir til að koma þessu máli og öðrum á dagskrá.

Ég vil í rauninni taka undir þær umræður sem áttu sér stað í fyrri andsvörum milli hv. þm. Kristjáns L. Möllers og hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur. Það er mjög brýnt að til að þetta klárist núna og til að hægt sé að setja einhverja hluti í ferli séu þau álit endurnýtt sem hafa þegar komið fram ef þetta á að fara í utanríkismálanefnd.

Ég verð eiginlega að spyrja hv. þingmann um eitt sem snýr að stjórnsýslunni hérna á þingi er lýtur að svona málum. Að sjálfsögðu hefði þetta mál frekar átt að vera í velferðarnefnd. Fjallað hefur verið um málið í velferðarnefnd og eðlilega hefði mér fundist, þrátt fyrir að það sé utanríkisráðherra sem flytji málið, að vinnan hefði átt sér stað þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að fljótlegra sé að taka þetta í gegnum utanríkismálanefnd eða í gegnum velferðarnefnd til að við náum að taka það í gegn núna á þessum stutta tíma. Þetta mál er vel þekkt. Þó er það samt alltaf þannig að maður veit í rauninni ekki hvort það sé alveg nákvæmlega eins og það sem lagt var fram. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún hafi rekið augun í eitthvað sem er ekki (Forseti hringir.) nákvæmlega eins í málunum, þingmannamálinu og svo þessu.