145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Líkt og ég sagði í andsvari áðan verð ég bara að viðurkenna að ég er ef til vill ekki nógu sjóuð í ferlum hér eftir að umræðu lýkur og kemur að því að máli sé vísað til nefndar til að geta haft algjörlega fastmótaða skoðun á því hvert nákvæmlega þetta tiltekna mál eigi að fara. Mér finnst það oft vera mjög augljóst og liggja í augum uppi hvert eigi að vísa málum. En þetta er mál af þeirri stærðargráðu og mál sem snýr að öllu í samfélaginu. Að sumu leyti finnst mér ekki skrýtið að hæstv. ráðherra hafi lagt það til í framsöguræðu sinni að vísa málinu til allsherjar- og menntamálanefndar, þ.e. allsherjarhlutans af henni, af því að líkt og segir hreinlega í athugasemdum með samningnum hafa málefni fatlaðs fólks svo oft verið skoðuð sem velferðar- eða heilbrigðismál. Málefni fatlaðs fólks eru bara svo miklu stærri og víðari en það. Málefni fatlaðs fólks eru málefni fólks. Það er í rauninni ekki flóknara en það.

Ég held að ef utanríkismálanefndarlending geti verið einhver leið til þess að við getum klárað málið þá finnst mér það bara vera hið besta mál. Mér finnst í rauninni ekki stóra álitamálið vera hvaða þingnefnd fær málið til umfjöllunar heldur það að sú þingnefnd sem fær málið (Forseti hringir.) noti þá vinnu sem farið hefur fram til þess að við getum (Forseti hringir.) lokið málinu. Verð að svara hinu í síðara andsvari.