145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera dálítið bjartsýn á að við munum ná, þrátt fyrir þessa umræðu um nefndirnar, að klára þetta mál einmitt vegna þess að hinn eindregni vilji er fyrir hendi. Ég trúi því ekki að við látum svona innanhússflækju standa í vegi fyrir því að samþykkja mikilvægt mál. En hins vegar velti ég fyrir mér og ætla alls ekki að segja þetta til að flækja málið nokkuð frekar en mig langar að vekja á því athygli að við þurfum samt auðvitað að hafa það í huga að líkt og tillögugreinin er orðuð þá virðist hún ekki ná til valfrjálsu bókunarinnar. Ísland skrifaði undir bæði samninginn og hina valfrjálsu bókun. Mér finnst að sú nefnd sem mun taka málið til umfjöllunar að lokum verði að skoða það hvort þessi fullgilding taki ekki til alls pakkans, þ.e. bæði til samningsins sjálfs og hinnar valfrjálsu bókunar. Ef svo er ekki finnst mér við þurfa að bregðast við því þó svo það megi auðvitað á alls engan hátt verða til þess að tefja fyrir fullgildingunni á nokkurn hátt. En það skiptir gríðarlega miklu máli að bæði samningurinn og bókunin séu hérna undir.