145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

fullgilding samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

865. mál
[20:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil byrja á að taka undir með öðrum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og fagna því að hæstv. utanríkisráðherra mæli fyrir þessu máli og kemur með það inn í þingið. Vissulega er tíminn knappur en það á ekki að koma í veg fyrir það að við getum klárað það. Það hefur jafnframt komið fram í máli hv. þingmanna sem hafa talað að þetta væri forgangsmál og við ættum að einhenda okkur í að klára þetta mikilvæga mál.

Þetta er, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði svo réttilega, einn merkilegasti mannréttindasáttmáli sem gerður hefur verið, ekki vegna þess að það sé eitthvað nýtt í honum heldur staðfesting á almennum mannréttindum.

Það er auðvitað rétt sem komið hefur fram að það er löngu tímabært að fullgilda þennan samning og hefur örlað skulum við segja á þeirri skoðun að það hefði mátt klára miklu fyrr og hér lægi fyrir þingmannamál sem hv. þm. Kristján L. Möller hefur lagt fram. Ég ætla ekki að rengja það að við hefðum getað gert þetta fyrr. Hins vegar koma ágætlega fram í greinargerð með tillögunni rök fyrir því að við erum ekki fyrr á ferðinni með fullgildingu því að þetta kallar á mikla samræmingarvinnu.

Hér var lögð fram framkvæmdaáætlun þar sem lagt var upp með að samræma texta og breytingu laga á milli ráðuneyta, það hefur gengið ágætlega. Þá lá fyrir að fara í endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Það vill svo til að ég á sæti í þeim starfshópi sem var skipaður af hæstv. félagsmálaráðherra. Í ársbyrjun 2014 skipaði hæstv. félagsmálaráðherra þann starfshóp til að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Tilefni endurskoðunar þá var m.a. í samræmi við lög að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er ýmislegt sem hefur gerst á þeirri leið og ég gæti tínt til sem hefur tafið þá vinnu. Þetta er öflugur hópur með fullt af góðu fólki, fagfólki, sem þekkir kerfið mjög vel og er skipaður fulltrúum m.a. frá velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum félagsmálastjóra, Landssamtökum Þroskahjálpar, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalagi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar. Kannski dregur það fram hversu víðfeðm slík vinna er.

Nú liggja fyrir drög að tveimur frumvörpum. Það er kannski til áréttingar á því hversu mikil áhersla hefur verið lögð á þann þátt, þ.e. að fullgilda samninginn, að lög um málefni fatlaðs fólks hafa verið lögð fram, eða búið er að leggja fram drög að nýjum lögum og svo breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna, breytingalög, til samræmis við þær breytingar eða þau nýmæli sem koma fram í lögum um málefni fatlaðs fólks. Þar hefur samningurinn verið hafður allan tímann til hliðsjónar.

Hér er komið inn á vinnu þessa starfshóps í greinargerð með þingsályktunartillögunni á bls. 6 þar sem sagt er frá þeirri vinnu og að hluta til það sem þurfti að klára áður en að fullgildingu kom. Þetta er ágætlega tiltekið hér og kannski í ekki ástæða í fyrri umr. til að fara mjög nákvæmlega yfir það hvaða nýmæli við sjáum í þessum lögum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna sem hér er allur með sem viðauki, en nefna má þar nýmæli varðandi notendasamninga, notendastýrða persónulega aðstoð, sem eru auðvitað sjálfsögð mannréttindi og er kerfi sem við höfum verið að þróa, sértæka frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ráðgjafaþjónustu við börn með miklar þroska- og geðraskanir.

Þá er þar jafnframt samspil laga um þjónustu við fatlað fólk og félagsþjónustulaganna sem ég kom inn á, en þar er verið að skerpa á allri almennri þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um félagsþjónustu. Þetta er mjög mikilvægt. Má þar nefna kafla sem fjalla um félagslega heimaþjónustu og ferðaþjónustu. Þá eru þar ýmis nýmæli sem snúa að notendaráði fyrir þá hópa sem nýta sér þjónustu sveitarfélaga, auk þess sem lagt er til að setja á fót samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks.

Þá er mjög margt og flókið samspil sem snýr að húsnæðismálum, en eins og við þekkjum þurfti að fara mjög gaumgæfilega yfir þær breytingar sem urðu á lagaumhverfi húsnæðismála.

Allt að einu, virðulegi forseti, þá erum við komin á þennan tímapunkt hér og starfshópurinn er að vinna hörðum höndum að greinargerð með þessum tveimur frumvörpum og fara í gegnum umsagnir, þannig að það ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að leggja þau frumvörp fyrir nýtt þing. Mér finnst jafnframt ágætlega farið í greinargerðinni yfir rök fyrir því að við eigum að ganga skrefið núna til fulls. Ég tek svo heils hugar undir með öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að það er afar mikilvægt vegna þess að þetta er má segja vegferð. Þetta er vegferð sem við erum í en ekki einhver endastöð að fullgilda samninginn. Við verðum ávallt að vera tilbúin að ná fram sjálfsögðum mannréttindum, tryggja jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að mannvirkjum og virkja þátttöku allra í samfélaginu. Þá er mikilvægt að við tökum skrefið hér til fulls og bætum svo í þar sem þarf að laga og aðlögum lagaverkið og regluverkið að því fólki sem þörf þykir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti, en árétta það hins vegar að mikilvægt er að við klárum þetta núna fyrir þinglok.

Það hefur aðeins verið rætt hvar þetta mál ætti heima, hjá hvaða nefnd. Fram kom í andsvörum og máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers og hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að þetta ætti jafnvel heima og það mundi flýta fyrir málinu ef þetta færi í hv. utanríkismálanefnd. Ég ætla ekki að leggja dóm á það, en ef það er til þess fallið að nýta einhverjar upplýsingar sem fyrir liggja þá styð ég það.