145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var málaflokkurinn rammaáætlun fluttur yfir til umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá iðnaðarráðuneytinu. Á sama tíma var hann líka fluttur til innan þingsins, þ.e. frá iðnaðarnefnd til umhverfis- og samgöngunefndar. Á þessu kjörtímabili hefur einu sinn áður verið fjallað um þennan málaflokk á þinginu og var það þá rökstutt af hæstv. núverandi forsætisráðherra og þáverandi umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni að málið færi til atvinnuveganefndar. Það var gert með eftirfarandi hætti úr ræðustól, með leyfi forseta:

„Í þessu máli er fyrst og fremst verið að tiltaka átta kosti sem voru til skoðunar, einn var síðan færður í nýtingarflokk úr biðflokki. Það er ekki verið að færa neinn í verndarflokk. Á grundvelli þess er að mínu mati eðlilegt að málið hljóti umfjöllun í atvinnuveganefnd.“

Hér og nú er um allt annað mál að ræða. Hér er allt undir, allir kostir. Verið er að fjalla um verndarflokkinn, verið er að fjalla um biðflokkinn, verið er að fjalla um nýtingarflokkinn. Með réttu á málið þess vegna heima hjá umhverfis- og samgöngunefnd nema menn rökstyðji faglega þá breytingu (Forseti hringir.) sem verið er að gera. Einu svörin sem umhverfisráðherra gaf hér í gær voru þau að hún treysti atvinnuveganefnd betur fyrir málaflokknum og teldi meiri þekkingu þar innan borðs. (Forseti hringir.) Það eru ekki boðleg rök hjá ráðherra sem fer með umhverfismálin í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)