145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sjálf sit ég í nefndri umverfisnefnd. Í þingsköpum kemur fram að umhverfis- og samgöngunefnd skuli fjalla m.a. um rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála. Ég held að það liggi algjörlega ljóst fyrir að þegar við fjöllum um vernd og orkunýtingu jarðsvæða og rammaáætlun sem heyrir undir umhverfisráðherra þjóðarinnar þá er allt annað mjög óeðlilegt en að málið fari til umfjöllunar í þeirri fagnefnd sem undir umhverfismálaflokkinn heyrir. Það eru mér vonbrigði að hæstv. umhverfisráðherra skuli leggja lykkju á leið sína til að gera lítið úr fagnefnd sem hefur ítrekað fengið frá henni stór og mikil mál, bætt þau með mikilli vinnu. Ég nefni náttúruverndarlög, ég nefni svokallað innviðafrumvarp og núna síðast breytingar á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð sem skilaði töluvert góðri og þverpólitískri og (Forseti hringir.) þverfaglegri niðurstöðu og sumarvinnu hjá sumum okkar, vegna þess að málið var ekki nægilega vel útbúið af hendi ráðherrans og ráðuneytisins. (Forseti hringir.) En að rökin skuli bara vera þessi, að það sé meiri þekking (Forseti hringir.) fyrir hendi í atvinnuveganefnd, finnst mér ráðherranum ekki til sóma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)