145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:29]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er alls ekki rétt sem hér hefur verið fullyrt, að málið geti samkvæmt þingsköpum farið í hvora nefndina sem er. Það er ekki rétt. Samkvæmt 13. gr. þingskapa eiga ákvarðanir um verndun og nýtingu auðlinda að fara í umhverfisnefnd. Eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að nýta auðlind á það mál erindi inn í atvinnuveganefnd, en á meðan málið er á því stigi að taka ákvörðun um að náttúrusvæði sé tekið í nýtingarflokk á það heima í umhverfisnefnd.

Hæstv. ráðherra dró rökstuðning sinn til baka að hluta til áðan en það sem hún bar hér á borð í gær jaðrar við þingspjöll að mínu mati vegna þess að það er ekki forsvaranlegt að bjóða upp á önnur eins rök fyrir því að flytja mál milli nefnda í trássi við þingsköp. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt, það á að leita lögfræðiúrskurðar um þetta. Þingið getur ekki afgreitt þessa tillögu (Forseti hringir.) fyrr en komið er lögfræðiálit um það hvar málið á heima.