145. löggjafarþing — 152. fundur,  14. sept. 2016.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

853. mál
[13:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég sem varaformaður atvinnuveganefndar vil blanda mér í þetta mál. Við fengum sambærilegt mál um rammaáætlun til atvinnuveganefndar á sínum tíma og var það mjög umdeilt. Ég talaði þá fyrir því að umhverfis- og samgöngunefnd fengi málið til sín, það væri á hennar málasviði. Ekki var hlustað á það, málið fór í atvinnuveganefnd og við þekkjum allar rósirnar sem gerðar voru í því þar.

Þar sem ég er lausnamiðuð manneskja vildi ég gjarnan leiðbeina hæstv. ráðherra í þessum efnum, þ.e. að fela umhverfis- og samgöngunefnd málið en leggja til að báðar nefndirnar ynnu að framgangi þess og kæmu sér saman um vinnubrögð í þeim efnum. Ég held að það sé mikill tvíverknaður að kalla sömu gestina fyrir nefndina aftur og aftur því að síðast óskaði atvinnuveganefnd eftir umsögn umhverfis- og samgöngunefndar.

Gætu menn ekki reynt að horfa á þetta þannig (Forseti hringir.) að nefndirnar ynnu saman að málinu og fengju til sín gesti en að málið væri hjá umhverfis- og samgöngunefnd?