145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

tillaga um þingrof og kosningar.

[16:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að víkja að öðru máli. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hverju sæti að tillaga um þingrof og nýjar kosningar sé ekki komin á dagskrá eða hefði þegar fengið afgreiðslu eins og eðlilegt væri. Í 57. gr. laga um kosningar til Alþingis segir:

„Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag.“

Sem sagt, við eðlilegar aðstæður er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar standi í átta vikur. Nú eru 40 dagar, ekki 56, eftir fram að 29. október þannig að þegar er gengið þetta af þeim tíma sem venjulega er ætlaður til kosningar utan kjörfundar. Ég skil ekki, ef það er niðurstaða sem á að standa við að hér verði kosið í landinu 29. október næstkomandi, hvað dvelur tillögu um þingrof og festingu kjördags. Það er að mínu mati algerlega óásættanlegt að slíkt sé ekki gert og augljóst að það stefnir hraðbyri í að atkvæðisréttur verði hafður af mönnum. Skip kunna að vera að fara til veiða í mánaðalöng úthöld, námsmenn erlendis þurfa oft að keyra um langan veg til ræðismanna o.s.frv.

Ég gagnrýni þetta sleifarlag og spyr hæstv. forseta: Hefur forsætisráðherra eða stjórnvöld ekki gefið sig fram við forseta um að hér sé að koma þingrofstillaga og ákvörðun um kjördag? Ég fer eiginlega fram á liðsinni hæstv. forseta við að ganga í það mál. Við erum búin að breyta lögum um kosningarrétt manna búsettra erlendis, það er tilbúið, en ljóst er að allt kerfið bíður eftir því að kjördagur verði formlega ákveðinn. Þetta er óháð því hve lengi þetta þing kýs svo að starfa fram að mánaðamótunum eða þess vegna lengur, ef svo illa færi nú, en við erum jú með starfsáætlun sem gerir ráð fyrir að við ljúkum störfum um mánaðamótin. Það skilur þá tæpan mánuð eftir í kosningabaráttuna. En í öllu falli verður að gæta að þessu og virða það, (Forseti hringir.) nóg er nú samt þó að sleifarlag við verkstjórn hér og (Forseti hringir.) þá að sjálfsögðu af hálfu framkvæmdarvaldsins svipti menn ekki kosningarrétti í stórum stíl.