145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil þakka forseta fyrir útskýringar hans á málinu. Það eru oft þannig þegar fólk tjáir sig hér að maður þarf að fara í einhverjar túlkanir og ég hefði viljað að þetta væri afdráttarlausara því að þeir sem eru hér bornir þungum sökum fengu ekki rétt til að andmæla og þeir hafa ekki fengið tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Því væri eðlilegast og réttast ef þeir hv. þingmenn sem bera ábyrgð á þessu mundu einfaldlega lýsa því yfir að þetta plagg, þetta gagn, væri dautt og ómerkt.

Mig langar líka að segja að það er mjög mikilvægt þegar sagt er að það sé einhver meiri hluti nefndar, þá getur í þeim meiri hluta jafnvel verið þingmenn minni hlutans. Það er oft talað um meiri hluta nefnda fyrir ýmsum málum og það hefur ekkert að gera með meiri hluta stjórnar eða stjórnarandstöðu. Það er mjög mikilvægt að þetta mál sé leitt til lykta á þann veg að (Forseti hringir.) það sé algerlega skýrt hver ábyrgð þessara hv. þingmanna (Forseti hringir.) er og hver ábyrgð (Forseti hringir.) þingsins er gagnvart þeim einstaklingum sem eru bornir mjög þungum sökum, forseti.