145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og þeir vita sem hafa fylgst með umræðunni stóð aldrei til, og enginn einstaklingur var nefndur í embættis- eða sérfræðingageiranum, að gagnrýna embættismenn eða sérfræðinga. Ég vek athygli á því að það erum við stjórnmálamenn sem berum ábyrgð. Það er alveg skýrt. Ég vona að menn fari ekki að breyta þeirri orðræðu því að þá erum við komin á mjög hálan ís. Mér þykir miður ef það sem þarna kemur fram, og það vita allir í hvaða vinnslu þetta er enda hefur það komið margoft fram í fjölmiðlum, fer fram hjá almenningi og þinginu. Því að þær upplýsingar sem þarna koma fram eiga erindi til almennings. Nú hafa allir sem hafa rætt um þessi mál sagt að þeir vilji að óháður aðili fari yfir þetta mál.

Og talandi um virðingu þingsins skulum við sjá hvort það hljóti þá ekki að vera full samstaða um það (Forseti hringir.) að við setjum málið í þann farveg eins og hefur verið vilji meiri hluta fjárlaganefndar.