145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:20]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir þingmenn aðrir sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum í hv. fjárlaganefnd hljóta að koma hér upp og skýra afstöðu sína í málinu. Ef þeir sitja og þegja eru þeir samþykkir því sem þarna hefur farið fram. Það stóð aldrei til að gagnrýna embættismenn, segir hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Það er nefnilega málið. Það stóð sennilega til að gera hér upp pólitískar sakir og nota nafn þingsins þannig í pólitískum vígaferlum. Það er grafalvarlegt mál. Þingmennirnir skulda ekki bara viðkomandi einstaklingum afsökunarbeiðni, þeir skulda Alþingi Íslendinga afsökunarbeiðni (Gripið fram í: Heyr, heyr.) fyrir að hafa misnotað nafn þingsins með þessum hætti. Ég skil upphaflegu yfirlýsingu forseta þingsins svo að hann sé í raun og veru, á rósamáli, að (Forseti hringir.) dæma þetta plagg dautt og ómerkt, en það hefði hann mátt segja berum orðum (Forseti hringir.) og eiginlega þurft að krefjast þess að þetta plagg (Forseti hringir.) sé dregið til baka og aldrei (Forseti hringir.) látið sjást hér í þingsölum meir.