145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þingmann sem talaði á undan mér rétt þá er ekki víst að það verði meiri hluti fyrir plagginu í fjárlaganefnd. Það er því komið á hreint að því er virðist. Það er hluti af vandanum við þetta.

Virðulegi forseti. Ef við sleppum öllum nöfnum og gleymum því hvað við erum hneyksluð yfir þessum annars forkastanlegu vinnubrögðum þá ættum við bara að líta á það hvers konar fordæmi það gefur til framtíðar ef Alþingi lætur þetta óáreitt. Þarna stendur „meiri hluti fjárlaganefndar“. Það hefur þýðingu fyrir almenning, fyrir fjölmiðla. Hvað eiga þeir að halda? Næst þegar meiri hluti hv. fjárlaganefndar eða annarrar nefndar skilar einhverju til fjölmiðla og heldur um það fund, eiga fjölmiðlar að velta fyrir sér: Hmm, kannski er þetta ekki opinbert skjal, kannski er þetta vinnuplagg tveggja þingmanna, eða hugsanlega fimm? Sjáum til með það seinna?

Virðulegi forseti. Slíkt fordæmi getur ekki gengið. Við getum ekki leyft það. Það er ekki í lagi og það þýðir ekkert að láta eins og þetta snúist um eitthvað annað en það. Þetta snýst ekki um efni skýrslunnar vegna þess að efni skýrslunnar finnst ekki einu sinni á alþingisvefnum. Hvers vegna? (Forseti hringir.) Vegna þess að þetta er ekki skýrsla Alþingis, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Formið skiptir máli, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, af öllum mönnum, ætti að vera sammála um það.