145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er sumpart gagnleg umræða í fremur ógagnlegu máli. En ástæða er til að þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að taka það hér fram að hún standi ekki að þessu vinnuplaggi, eða hvað á að kalla það, og hlýtur þá að vekja spurningar um hvort þetta sé yfir höfuð á vegum meiri hluta fjárlaganefndar ef hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir stendur ekki að þessu. Ég hlýt að kalla eftir því að hv. þm. Haraldur Benediktsson sem situr hér í salnum geri okkur grein fyrir því hvort hann sé aðili að þessari skýrslu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og geri hana þar með að skýrslu eða einhvers konar vinnuplaggi meiri hluta fjárlaganefndar. Eða hvort það sé yfir höfuð enginn meiri hluti fyrir málinu í nefndinni. Ég kalla eftir því að hv. þm. Haraldur Benediktsson geri grein fyrir því hvort hann eigi aðild að þeim ávirðingum sem hér eru bornar á m.a. embættismenn og sérfræðinga sem starfað hafa í þágu ríkisins úti í bæ.