145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það voru náttúrlega gerð mistök af hálfu forseta í upphafi þegar svokallað Víglundarmál var tekið inn í þingið, það er alveg ljóst. En ég verð að spyrja hv. þingmann úr meiri hlutanum sem kom hér upp í ræðustól, Valgerði Gunnarsdóttur, spurninga: Hvað með framsetninguna á málinu? Hvað með orðfærið? Hvað með ávirðingarnar og hvernig málið er sett fram? Stendur hún og Haraldur Benediktsson, Ásmundur Einar Daðason, Páll Jóhann Pálsson, standa þau öll að þessu orðfæri sem þarna er? Ásakanirnar eru þær sömu og Víglundur hélt fram, þær eru á víð og dreif um skýrsluna, það er alveg ljóst. Það var fundafall í morgun í fjárlaganefnd. Hvers vegna? Við erum búin að óska eftir því í minni hlutanum að fá svör við því hverjir komu að skýrslugerðinni, hvaða þjónusta var keypt og af hverjum. Svör við þeim spurningum þurfa að liggja fyrir.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að það væri enga stund verið að lesa í gegnum þetta, svoleiðis að ég get ekki trúað því að þingmenn meiri hlutans þurfi miklu lengri tíma, en það upplýsir að þau voru ekki búin að lesa skýrsluna sem er kynnt sem skýrsla meiri hluta fjárlaganefndar (Forseti hringir.) þegar hún var kynnt á blaðamannafundi. (Forseti hringir.) Það eitt og sér, virðulegi forseti, er ávirðingavert. Og ég vona (Forseti hringir.) svo sannarlega að formaður fjárlaganefndar, sem er hér ekki til svara, (Forseti hringir.) hvort hún er með skráða fjarvist veit ég ekki, (Forseti hringir.) það er mikið til umfjöllunar þessa dagana, dragi þetta til baka. Forseti á að beita sér fyrir (Forseti hringir.) því að þetta verði dregið til baka og þau biðjist afsökunar.