145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

yfirlýsing forseta um skýrslu fjárlaganefndar.

[16:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta fyrir að kveða upp úr um það að þetta er ekki skýrsla. Ég vil líka þakka honum fyrir það að vera skýr að því er varðar þá stöðu í raun og veru sem hv. þingmenn taka sér með því að ræða málið í nafni Alþingis og meiri hluta fjárlaganefndar. Ég vil biðja hæstv. forseta að tala skýrar vegna þess að það sem í hans orðum liggur er að verið sé að misnota stöðu sína í fjárlaganefnd og stöðu Alþingis til þess að koma pólitískum og faglegum ávirðingum á framfæri.

Vegna þess að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talar um það að við eigum að tala um innihald máls, þá skulum við gera það. Þá legg ég til við hv. þingmann að hann safni nú saman þessum miklu réttlætispostulum í meiri hluta fjárlaganefndar, safni meiri hluta utan um þetta mál, sem hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir treystir sér ekki til að styðja núna, (Forseti hringir.) safni meiri hluta utan um málið og meiri hluti nefndarinnar afgreiði málið (Forseti hringir.) út úr þingnefndinni og það fái stöðu sem þingskjal, (Forseti hringir.) hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Sjálfstæðisflokknum, (Forseti hringir.) Valgerði Gunnarsdóttur, Vigdísi Hauksdóttur (Forseti hringir.) og Framsóknarflokknum til ævarandi skammar.