145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

framtíðarskipan lífeyrismála.

[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar jafnframt því sem ég hef áður sagt að halda til haga mörgum öðrum mikilvægum málum sem snúa að framtíðinni og tengjast þessu samkomulagi. Þar vil ég sérstaklega halda til haga því sem opinberu félögin hafa svo lengi barist fyrir sem er að nú getum við farið að vinna að launaskriðstryggingu fyrir opinbera starfsmenn í góðri sátt við almenna markaðinn.

Hér er komið inn á kostnaðinn og að vel þurfi að fara yfir alla þætti þessa máls. Ég tek undir það. Vissulega er framlag ríkisins gríðarlega hátt, sérstaklega þegar það fellur til með einskiptisframlagi. En það verður að hafa í huga að hérna var um að ræða skuldbindingu sem hefði fallið á ríkið í framtíðinni. Í sjálfu sér er ekki verið að gefa út nein ný loforð eða greiða fyrir eitthvað sem ekki var þegar búið að lofa. Það hefur verið útgangspunktur ríkisins allan tímann að réttindin ættu að vera óskert hjá þeim sem væru inni í núverandi kerfi og framlögin yrðu m.a. til að fullfjármagna þau réttindi eins og þau hafa birst okkur ófjármögnuð í fjárlögum undanfarin ár.

Varðandi þörfina til að binda þetta fé þá verður hugað að því þegar ákveðið verður (Forseti hringir.) með hvaða hætti ríkið greiðir sinn þátt málsins. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það skiptir máli að féð verði bundið en fari ekki út til þess að valda þenslu.