145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjármunir sem fóru í skuldaniðurfellinguna.

[16:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra veit væntanlega að skuldir heimilanna voru byrjaðar að lækka áður en aðgerðin kom til framkvæmda. Húsnæðisverð hefur hækkað. Það hefur verið lítið atvinnuleysi þannig að það lá í rauninni fyrir að staða heimilanna mundi batna verulega. Það þurfti ekki þessa aðgerð til.

Þá vil ég líka benda á að heimilin nota menntakerfið, vegakerfið, heilbrigðiskerfið og öll þessi kerfi sem við þurfum að fjármagna. Hvar ætlar hæstv. fjármálaráðherra að finna peninga í það? Að vísu er ekki víst að viðkomandi sitji hér áfram, en hvar á að fá peninga í uppbyggingu innviða?

Ég fékk einhvern tímann upplýsingar um að peningurinn sem fór í umsýslukostnaðinn sjálfan við þessa flóknu aðgerð var um 600 milljónir. Hvað hefðum við getað gert fyrir þá peninga? Segjum að við hefðum tekið þá og sagt að við ætluðum að setja þá í málefni geðfatlaðra. Við hefðum getað leyst heilu málaflokkana með þessum 600 milljónum. Við hefðum getað sett þá í framhaldsskólakerfið. Þetta var bara umsýslukostnaðurinn við þessa flóknu og allt að því kommúnísku aðgerð. Það er ekki hlutverk (Forseti hringir.) ríkisins að greiða niður einkaskuldir heimilanna og getur aldrei orðið.