145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjármunir sem fóru í skuldaniðurfellinguna.

[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Það er engum vafa undirorpið að aðgerðin skilaði árangri. Því hefur verið haldið fram (Gripið fram í.) og var haldið fram á sínum tíma að þetta mundi allt éta sig upp sjálft með aukinni verðbólgu og menn höfðu áhyggjur af því að við mundum sjá þenslu. Það ánægjulega er að betri skuldastaða heimilanna hefur ekki orðið til þess að menn skuldsetji sig á ný og farið með svigrúmið til aukinnar einkaneyslu. Við höfum séð gjörbreytta hegðun heimilanna á undanförnum árum borið saman við það sem áður var þar sem heimilin hafa nýtt svigrúmið. Menn virðast hafa lært af því sem hér gerðist. Sparnaður er að aukast. Þegar saman er tekið í raun og veru hefur aðgerðin heppnast betur en við þorðum að vona. Á hinn bóginn er alveg hárrétt sem hv. þingmaður vekur máls á hér, við þurfum að eiga fjármuni á næstu árum til að auka við í innviðafjárfestingu. Þar erum við sammála. Þar er lykillinn sá að viðhalda þeim krafti og þeim vexti (Forseti hringir.) sem er í atvinnulífinu á Íslandi vegna þess að það skilar ríkissjóði þeim tekjum sem bera uppi langtímaáætlun okkar í ríkisfjármálum.