145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjárveitingar til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fyrr á þessu ári var gert samkomulag við umrædda menntastofnun vegna fjárhagsvanda sem hún var í. Það má segja að það hafi verið tvíhliða samkomulag þar sem gengið var út frá ákveðnum forsendum um rekstrarhorfur á árinu 2016. Af hálfu skólans hefur ekki verið staðið við það sem um var rætt samkvæmt samkomulaginu. Rekstrarstaða skólans er verri en hún átti að vera samkvæmt viðkomandi samkomulagi. Aðalástæðan og eina ástæðan fyrir því að sú staða er komin upp að nýju sem menn reyndu að forða fyrir örfáum mánuðum er sú að skólinn hefur ekki getað staðið við sinn hluta samkomulagsins.

Mig langar til að rifja upp í þessu sambandi að þegar ný ríkisstjórn tók við á árinu 2013 var staðan sú á framhaldsskólastiginu að framlag á nemanda lá í kringum 900.000 kr. Við höfum í millitíðinni gert ráðstafanir til að tryggja að framlögin færu hækkandi. Þau hafa hækkað á nemanda úr í kringum 900.000 kr. upp í um 1.100.000 kr. Ef fram heldur sem horfir og samkvæmt þeirri áætlun í ríkisfjármálum sem nú liggur fyrir, samþykkt af Alþingi, munum við á komandi árum gera svo miklum mun betur að framlögin stefna í að vera um 1,6 milljónir á nemanda þegar komið er inn á síðari hluta og undir lok áætlunartímabilsins.

Þetta sýnir í hnotskurn þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir til að bæta menntun í landinu, til að auka framlög á nemanda og auka svigrúm skólanna til að sinna hlutverkum sínum. Síðan fáum við einstaka dæmi eins og það sem við erum með hér (Forseti hringir.) sem á sér þær skýringar sem ég hef rakið.