145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fjárveitingar til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[17:00]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Líklega eru 12 skólar, jafnvel 15, í svipaðri stöðu, þ.e. með halla á árinu, og ég spyr: Hvernig er staða þeirra? Sitja allir skólar við sama borð hvað þetta varðar? Ég vil líka benda á það, eins og ég sagði, að launahækkanirnar eru ekki bættar að fullu. Kennsluafslátturinn kostar t.d. Verkmenntaskólann á Akureyri í kringum átta stöður og það er ekki ásættanlegt. Skólanum er ekki gert kleift að fjármagna þetta. Það var mikið sparað á síðasta ári. Það þarf að greiða úr vanda skólanna núna. Það er ekki hægt að segja að framlagið verði hærra og eigi að greiðast niður með auknu framlagi í komandi tíð þegar styttingin verður farin að skila sér o.s.frv. Þessi staða er uppi núna. Ef það er eins og hæstv. ráðherra segir, að skólinn hafi ekki staðið við sitt í þessu samkomulagi, þarf auðvitað (Forseti hringir.) að taka á því. En það má spyrja sig: Var samkomulagið einhvern tímann raunhæft? Eða er skólinn á fyrsta mánuði sínum á þessari önn gjörsamlega búinn að spila rassinn úr buxunum?