145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þetta mikilvæga mál sem ég fagna að við komum til með að greiða atkvæði um í dag að öllu óbreyttu. Mér finnst þó nauðsynlegt að vekja athygli á því að í frumvarpinu eins og það kom inn til Alþingis var nokkuð sem ég vil meina að gæti hafa orðið hræðileg mistök. Mig langar til að vekja athygli á því til umhugsunar hversu nálægt við getum verið því að klúðra mannréttindum óvart. Frumvarpinu er ætlað að þrengja heimildir til símahlustunar og hlerana og gerir það að öllu jöfnu, en þar er upptalning á ýmsum greinum sem ekki falla undir þrenginguna sjálfa. Það er upptalning sem ég ætla að láta eiga sig að nefna hér en vísa í skjölin til þess, en þegar frumvarpið kom inn til Alþingis var 210. gr. almennra hegningarlaga þar á meðal og það er lagagrein sem er heldur sérstök í frjálslyndum, vestrænum lýðræðisríkjum vegna þess að það er sú grein sem á Íslandi bannar klám. Ég veit að það er umræðuefni sem fólk forðast en ég vek einnig athygli á því að það er umræða sem fólk forðast ekki síst vegna þess að margir, flestir reyndar, virðast eiga erfitt með að skilgreina hugtakið klám. Um það hafa verið skrifaðar margar og lærðar greinar á ýmsum vettvangi við ýmis tilefni, fræðileg sem réttarfarsleg.

Það er sérstakt í vestrænum lýðræðisríkjum að klám sé bannað. Þetta er ekki venjan. Við erum svolítið sérstök að þessu leyti á Íslandi, svolítið eftir á hvað það varðar. Það ætti fyrir löngu að vera búið að losa okkur við þessa grein eða breyta henni þannig að hún takist á við eitthvað sem er þess virði að hafa í hegningarlögum, svo sem dreifingu á hrelliklámi. Ef við hefðum hér meiri tíma mundi ég mæla fyrir slíku frumvarpi eða breyta frumvarpi hv. þingflokks Bjartrar framtíðar sem lagði fram frumvarp fyrr á þessu þingi um að banna hrelliklám. Ég vísa til þeirrar umræðu um það.

Hvað sem fólki finnst um hugtakið klám og hvernig svo sem fólk ætlar að skilgreina þetta stendur eftir að í nútímaheimi skoðar alveg ofboðslega margt fólk klám á netinu í dag. Það er raunveruleiki sem við búum við. Okkur þarf ekkert að líka vel við það. Það er allt í lagi að við roðnum pínulítið og að okkur finnist óþægilegt að tala um það, en tilfellið er að það er óheyrilega stór hópur af fólki. Ef við hefðum heimilað að það færi hér inn sem undantekning þar sem lögreglu væri heimilt að hlera mundi mér ekki líða vel að búa í þessu landi, virðulegi forseti, undir slíku gerræði sem lögreglunni væri falið til hlerana. Það er auðvitað vegna þess að við erum eftir á þegar kemur að málaflokknum yfir höfuð. En ég verð líka að segja að það gleður mig hvað það var auðvelt að taka þetta út, það þurfti ekki meira til en umræðu.

Á móti er sett inn önnur grein sem varðar spillingu og þarna eru aðrar greinar sem fjalla um t.d. barnaklám, nokkuð sem er enn inni og á að vera þar að mínu mati.

Það hvernig við látum þetta málefni alltaf rúlla undir umræðuna vegna þess að við erum ýmist of feimin til að taka hana eða við erum bara með skoðanir sem satt best að segja eru ekki alveg verjandi út frá borgararéttindalegum sjónarmiðum stendur eftir að þessi grein er þarna og getur valdið stórkostlegum usla og gerði það næstum því í þessu tilfelli. Hún gerði það næstum því. Við rétt sluppum.

Í bráðabirgðaákvæði með frumvarpinu, að tillögu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er kveðið á um að við þurfum að vera á varðbergi gagnvart því hvernig þessum heimildum er síðan beitt. Það er lykilatriði að mínu mati í því að fara fram á við vegna þess að ekki síst með hliðsjón af því hvað við vorum nálægt því að klúðra þessu er mikilvægt að við fylgjumst vel með því hvernig þessar heimildir eru raunverulega notaðar og að þær réttlætingar sem eru notaðar fyrir beitingu svona heimilda séu lögmætar og réttmætar og gangi ekki lengra en þörf er á.

Ég fagna því reyndar að í þeim umræðum sem hér eiga sér stað um þetta mál virðist samhugur meðal þingmanna, a.m.k. þeirra sem hafa hér talað, um að það þurfi að vera mjög gott eftirlit með þessum heimildum. Þetta eru hættulegar heimildir, ekki bara þegar um stjórnmálamenn er að ræða, heldur þegar um borgarana er að ræða. Það er ekki bara mikilvægt að stjórnmálamenn séu ekki hleraðir í pólitískum tilgangi, það er líka mikilvægt að borgarinn sé ekki hleraður í röngum tilgangi eða af röngum ástæðum. Það er gríðarlega mikilvægt.

Það er annað sem mér finnst líka mikilvægt að hafa í huga og það varðar umsögn uppáhaldsstofnunarinnar minnar, eða einnar af þeim, Persónuverndar. Persónuvernd lýsti yfir eindregnum stuðningi við þetta mál og fagnaði því, eðlilega, enda er hér verið að þrengja heimildir til símhlerunar sem er mjög í takt við þau gildi sem Persónuvernd sem stofnun er ætlað að vernda.

Hins vegar verðum við líka að hafa í huga að við getum ekki skilið það eftir handa stofnunum á borð við Persónuvernd sem þegar allt kemur til alls er lögfræðistofnun, stofnun sem er hönnuð til að fjalla um lögin eins og löggjafinn hefur ákveðið að þau skuli vera, vegna þess að Persónuvernd nefndi ekki að það væri algjörlega bráðnauðsynlegt að taka 210. gr. úr þessu frumvarpi og var í sjálfu sér ekki endilega í stakk búin til þess vegna þess að hlutverk stofnunarinnar er ekki það að hafa vit fyrir okkur á hinu háa Alþingi þegar kemur að því hvaða viðmið við setjum fyrir friðhelgi einkalífsins og beitingu úrræða eins og hlerana. Það er okkar verk. Þess vegna verðum við að standa vaktina og sem betur fer gerðum við það núna. Hins vegar munaði ekki mjög miklu. Það hefði getað munað þingflokki eða tveimur að þetta hefði getað endað mjög illa. Svo veit maður aldrei endanlega hvað hefði orðið. Með ágæta þingmenn eins og hv. 5. þm. Reykv. n. má vel vera að þetta hefði verið gripið og afgreitt með þessum farsæla hætti.

Þegar við setjum inn greinar eins og 210. gr. almennra hegningarlaga þurfum við að geta talað um það. Við þurfum að geta áttað okkur á því að þótt klám sé rosalega óþægilegt orð og óþægilegt umræðuefni er það samt fyrirbæri sem ofboðslega stór hluti almennings neytir hvað sem fólki finnst um það. Það að ætla að tækla það með hlerunum eða því að loka fyrir internettengingar er hræðileg hugmynd, virðulegi forseti. Mér þykir það vera lexían í þessu máli.

Eins og ég kom lauslega inn á áðan er í bráðabirgðaákvæði fjallað um það að reyna að veita lögreglu smáaðhald við rannsókn þessara mála og það er afskaplega mikilvægt. Sömuleiðis er annað mikilvægt sem ég býst við að hv. 12. þm. Suðvest. fari lauslega yfir á eftir, það að lýsigögn séu með, skoðað hvernig farið er með þau og hvort það sé nauðsynlegt að nota þau í þeim mæli sem þau eru notuð. Ég skil það eftir handa þeim hv. þingmanni sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir hönd okkar pírata. Það er líka alveg þess virði að nefna mikilvægi þess að efla eftirlit með lögreglu almennt.

Píratar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um sjálfstætt eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Það væri óskandi að hægt yrði að koma á fót slíku eftirliti og ég held að fullt tilefni sé til. Ég held að sagan sýni að fullt tilefni sé til, ekki síst eftir að við lögðum upp með þá fyrirspurn á dögunum og komumst að því að símhleranir eru samþykktar í 99,31% tilfella. Svo eru menn auðvitað með einhverjar afsakanir á þessu sem ég get ekki leyft mér að trúa vegna þess að ég verð að fara eftir þeim gögnum sem eru aðgengileg. Ég verð að treysta því að gögnin séu rétt. Þau sýna í það minnsta svo ekki verður um villst að brotalöm er til staðar í því hvernig lögregla beitir valdi sínu, heimild til hlerunar eins og ýmsu öðru valdi. Það er ekki við öðru að búast þegar um er að ræða mannlegar stofnanir. Við skulum ekki láta eins og það sé eitthvert tilefni til að hneykslast yfir slíkum orðum. Við skulum ekki heldur láta eins og þá sé verið að dreifa einhverri tortryggni. Þetta er valdastofnun og hún hefur heimildir til að hlera fólk. Hún hefur heimildir til að beita líkamlegu valdi á fólk. Það er algjör nauðsyn gagnvart borgararéttindum og lýðræðinu sjálfu að eftirlit og aðhald með slíkum stofnunum sé viðunandi. Það er lykilatriði, virðulegi forseti, og enginn ætti að vera hneykslaður yfir því. Þrátt fyrir frábær rök í þingsályktunartillögu um að koma á fót slíkri stofnun fékk hún ekki brautargengi eins og reyndar var við að búast miðað við raunveruleika stjórnmálanna. Hins vegar var samþykkt mál um að efla eftirlit með lögreglu á mun minni hátt en við píratar vildum, við vildum koma á fót nefnd sem tekur við kvörtunum og kærum á hendur lögreglu og býr til feril til að meðhöndla slíkt og getur sömuleiðis búið til tölfræði sem seinna meir er hægt að nota til að komast að því hvort ganga þurfi lengra eða, eins og ég mundi segja, þegar þarf að ganga lengra í aðhaldi með lögreglu og sambærilegum stofnunum.

Nú vona ég auðvitað að sú nefnd skili sem mestum árangri. Ég vona innilega að hún breyti miklu fleiri hlutum til hins betra en mig grunar að hún muni gera. Ég hygg hins vegar ekki að hún hefði getað tekið við hlutverki eins og því sem er tilgreint í þessu bráðabirgðaákvæði. Ég held að þrátt fyrir að sú nefnd sé til komin og muni gera ýmislegt gott þegar kemur að hegðun lögreglumanna gagnvart borgaranum geti borgarinn eðli málsins samkvæmt ekki kvartað undan því sem hann veit ekki að á sér stað.

Þá vil ég nefna aðra brotalöm sem við þurfum líka að hafa í huga. Ég hef heyrt oftar en tvisvar og oftar en þrisvar og frá fleiri en tveimur eða þremur stöðum að það sé brotalöm til staðar gagnvart því að upplýsa fólk um að það hafi verið hlerað. Það er líka alvarlegt. Þegar fólk verður fyrir hlerunum og ekkert meira gert er mikilvægt að fólk fái að vita af því. Borgarinn þarf að bera skynbragð á það hversu mikið eftirlit yfirvalda er gagnvart honum. Það er ofboðslega mikilvægt. Við Íslendingar höfum að mínu mati lengi vel verið barnaleg gagnvart því hvernig valdastrúktúrar virka óhjákvæmilega og þess vegna ekki alveg með puttann á púlsinum gagnvart því hvaða aðhald sé nauðsynlegt. En það er nauðsynlegt og þarf að vera meira af því og þótt fagna beri þessu frumvarpi verðum við samt að læra af því sem gerðist á hinu háa Alþingi. Við settum næstum því inn hlerunarheimild fyrir dreifingu á klámi. Ég veit að það er ekki það sama að neyta kláms og dreifa því, en þegar einn neytir einhvers á netinu er eðli málsins samkvæmt einhver annar að dreifa því fyrir utan að maður getur ekki vitað nákvæmlega hvernig framkvæmdarvaldið fer með þær heimildir sem eru gefnar á Alþingi. Við vitum öll að á því eru brotalamir og við megum ekki við því að láta slíkt velkjast um árum eða jafnvel áratugum saman án þess að dómskerfið eða Alþingi geti endilega meðhöndlað það vegna þess að enginn veit af því eða enginn vill tala um það.

Síðast en ekki síst er ég með fyrirvara á þessum tíma sem ég hef eftir. Ég held ekki að svona lög verði nokkurn tímann fullkomin. Ég held ekki að svona lög séu þess eðlis að ekki sé hægt að misnota þau. Ég held að það sé alltaf hægt. Ég held hins vegar að hægt sé að draga úr líkum á því og ég held að hægt sé að búa þannig um hnútana að þegar svona heimildir eru misnotaðar sé á einhvern hátt brugðist við, þótt ekki væri með öðru en því að Alþingi sé meðvitað um það. Ég fagna sérstaklega þessu bráðabirgðaákvæði. Það hjálpar mér mikið við að greiða atkvæði með þessu máli vegna þess að þótt 210. gr. hafi fallið burt úr upptalningunni eru þarna aðrar greinar sem er alveg eins virði að ræða hvort eigi endilega heima í sérstakri upptalningu. Ef menn telja þetta svona alvarleg brot verður að spyrja hvers vegna þeir hækki ekki refsirammann. Það er spurning sem við höfum ekki farið í að neinu ráði hér og er nokkuð sem kannski þyrfti að ræða meira í samhengi við þau tilteknu brot. Hér er eina samhengið símahlustanir, hleranir og slíkt.

Það er alveg þess virði að velta fyrir sér hvers vegna við réttlætum þær heimildir sem við þó gefum. Sem fyrr greinir er þetta bráðabirgðaákvæði til staðar og það hjálpar mér við að greiða atkvæði með þessu máli. Ég legg á það ríka áherslu að við sofnum ekki á verðinum og að næstu þing á næstu kjörtímabilum, þarnæstu o.s.frv. fylgist með þessu, að það sé virkt eftirlit með þeim stofnunum sem hafa þessar heimildir. Þær eru alvarlegar og við eigum aldrei að taka þeim sem léttvægum hlut.