145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp sem er afar mikilvægt og snýr m.a. að hlerunum á vegum lögreglu. Þingmenn hafa rætt einstakar greinar og orðið sammála um að þegar á heildina er litið gengur þetta frumvarp út á að þrengja og skýra heimildir lögreglu til hlerana. Ég ítreka það sem kom fram hjá mér í andsvari áðan, að grundvallaratriði af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gagnvart þessu frumvarpi er ákvæði til bráðabirgða sem frá þeirri nefnd er runnið og er komið inn í þetta frumvarp um að fram þurfi að fara ítarleg vinna um það hvernig staðið skuli að eftirliti til frambúðar.

Það er mjög mikilvægt að þingmál fái vandaða umfjöllun, ekki síst flókin mál eins og þetta frumvarp. Ég held að við séum öll sammála sem höfum komið að því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þessu máli er í raun ekki lokið. Við þurfum að fara inn í vinnuferli sem verði síðan betur botnað.

Ég tel ágætlega staðið að þessu af hálfu stjórnvalda og finnst mér ástæða til þess, án þess að ég ætli að fara út í langa ræðu þar að lútandi, að minna á að fyrir þinginu er fjöldi flókinna frumvarpa sem þarf ítarlega umfjöllun í þinginu. Við hlustuðum á hæstv. fjármálaráðherra áðan segja að ekki kæmi annað til greina af hans hálfu en að frumvarp um breytingu á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna yrði samþykkt. Það er ekkert byrjað að ræða málið, frumvarpið er ekki komið fram.

Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað breyting á viðmiðunaraldri til lífeyrisréttinda úr 65 í 67 ár þýðir fyrir einstakling með 300.000 kr.? Nú er það þannig að réttindin skerðast við 0,5% á mánuði hverjum ef lífeyrisrétturinn er nýttur fyrir þennan tíma en ávinningurinn er 0,75% ef lífeyristöku er frestað. Nú ætla menn að færa þetta viðmiðunarár upp um tvö ár. Hvað þýðir það? Hafa menn hugsað út í það? Hvað þýðir það ef einstaklingur með 300.000 kr. frestaði því í tvö ár, sem á núna að taka af honum, að taka lífeyri? Það þýðir 54.000 kr. á hverjum einasta mánuði í ávinningi sem hann ella hefði fengið. Það er ekki nóg með það, núna fer líka að telja skerðing upp á 0,5%. Hvað er það mikið? Það eru 36.000 kr. á þessum tveimur árum. Hvað erum við þá að tala um? Við erum að tala um að í einu vetfangi á að lækka einstakling með 300.000 kr. í lífeyri um 90.000 kr., ekki á ári, heldur hverjum einasta mánuði. Þetta ætla menn okkur að samþykkja eins og að drekka vatn. Ég hlustaði á hæstv. fjármálaráðherra halda þessu fram áðan.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir að umbera það að ég nefni þetta, en ég geri það í því samhengi að frumvörp á Alþingi á að skoða gaumgæfilega áður en þau eru samþykkt. Ítarlegar rannsóknarskýrslur voru skrifaðar fyrir Alþingi um að okkur bæri að vanda vinnubrögðin og þess vegna vara ég við því að keyra í gegnum þingið frumvarp um almannatryggingar og frumvarp um lífeyrissjóðina án þess að þingmenn fái andrými til að skoða allar víddir þeirra. Þetta finnst mér grundvallaratriði og ég tefli fram þessari hugsun gegn þeirri hugsun sem ég tel að þetta frumvarp byggi á. Það eru miklu vandaðri vinnubrögð, auk þess sem verið er að setja vinnuna í ferli sem er ekki lokið með samþykkt þessa máls.