145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins. Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt mál er hér á ferðinni og hversu mikla áherslu allir þingmenn allra flokka hafa lagt á að þetta verkefni, risastóra mál og risastóri samningur, gangi eftir og hversu mikilvægt það er í huga þeirra sem sitja fundi hv. utanríkismálanefndar að málið klárist. Það er ánægjulegt ef stefnir í það og við náum að afgreiða það fyrir lok þessa þings.

Nefndin fékk auðvitað tækifæri áður en til undirritunar kom að fara yfir málið. Eins og menn þekkja og hv. þingheimur þekkir skrifaði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra undir samninginn fyrir Íslands hönd við formlega undirskriftarathöfn Sameinuðu þjóðanna í New York 22. apríl 2016. Fyrir þann tíma höfðu fulltrúar í hv. utanríkismálanefnd fengið tækifæri til að ræða málin og fara yfir þau og markmiðin í samtölum við okkar helstu samningamenn og augljóst að við vorum ágætlega upplýst um það þó að fram megi koma að við höfðum kannski ekki þær væntingar að það mundi ganga alveg eins vel og síðan varð. Það er mikið fagnaðarefni hvernig til tókst.

Nefndin, eftir að málið var flutt hér formlega, hefur rætt málið á sínum fundum, fengið á sinn fund Helgu Hauksdóttur, Hrund Hafsteinsdóttur og Þorvald Hrafn Ingvason frá utanríkisráðuneytinu og Huga Ólafsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Eins og ég sagði höfðum við einnig fengið kynningar áður. Eins og hv. þingmenn þekkja er með þessari þingsályktunartillögu leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda fyrir Íslands hönd Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var í París 12. desember 2015. Við þekkjum öll þau markmið sem þar eru fram sett sem er að halda hækkun hitastigs jarðar vel undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu en að leita skuli jafnframt leiða til að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C miðað við hitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Þetta eru þeir tæknilegu þættir og þau úrlausnarefni sem aðilar sem komu að þessum málum hafa staðið frammi fyrir.

Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að Parísarsamningurinn myndi ramma utan um skuldbindingar ríkjanna sem nefnast landsákvörðuð framlög. Ríkin tilkynna formlega og reglulega landsákvörðuð framlög sín til sérstakrar skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna sem fela í sér markmið um minni losun gróðurhúsalofttegunda og upplýsingar um fleiri aðgerðir í loftslagsmálum, ýmist til fimm eða tíu ára. Það kom fram í máli okkar samningamanna og annarra sem gleggst til þekkja að auðvitað er talsverður munur á því hvað þróunarríkin þurfa að uppfylla og síðan önnur ríki en þróuðu ríkin skulu halda áfram að leiða það verkefni að draga úr losun í öllu hagkerfinu og þróunarríki eiga á sama tíma að halda áfram að reyna að draga úr losun og eru hvött til þess með tímanum að taka upp markmið sem ná yfir allt hagkerfið. Einnig var sérstaklega nefnt sem nýnæmi af þeim sem til okkar komu í hv. utanríkismálanefnd að nú skulu þróunarríki fá stuðning frá þróuðu ríkjunum við framkvæmd samningsins og má ætla að það hafi haft talsverð áhrif á að slík samstaða náðist.

Eins og ég sagði áðan skal hvert ríki gefa þessar upplýsingar reglulega. Á fundi nefndarinnar kom fram að landsákvarðað framlag Íslands er að ná fram í samstarfi við ESB og Noreg 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við útblástur árið 1990. Auðvitað eru það talsvert háleit og góð markmið en eru markmið sem okkar færustu sérfræðingar telja að sé hægt að ná. Fyrir liggja nánari viðræður Íslands, Noregs og ESB um útfærslu á regluverki og hlut hvers í fyrrnefndri minnkun losunar. Meginþættir regluverksins verða í fyrsta lagi áframhaldandi þátttaka í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda en yfir 10.000 fyrirtæki í Evrópu og á annan tug hérlendis fá úthlutað heimildum sem eru framseljanlegar á markaði. Í öðru lagi verða losunarmarkmið utan viðskiptakerfisins ákvörðuð með því að beita sömu aðferðafræði og ríki ESB. Í þriðja lagi er áhersla á skógrækt og kolefnabindingu. Áætluð lok þessara viðræðna Noregs og ESB eru á árinu 2017 og 2018.

Þá var sérstaklega farið yfir á fundi nefndarinnar sóknarfæri Íslands og tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá var m.a. vísað til aðgerðaáætlunar 2010–2020 til að ná markmiðum Kýótó-bókunarinnar um 20% minni losun og hins vegar til sóknaráætlunar 2016–2018 sem tekur til umræddra þátta og lýtur að orkuskiptum, rafbílum, skógrækt, endurheimt votlendis og matarsóun, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir liggur að helstu möguleikar Íslands, þ.e. helstu möguleikar okkar hérlendis á minni losun liggja í samgöngum, fiskveiðum og landbúnaði. Það var ýmislegt rætt og kynnt sem við þekkjum hér og höfum áður rætt sem má ætla að vinni með okkur í að ná þessum markmiðum.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að ríki heims taki með ábyrgum og afgerandi hætti á loftslagsvandanum. Ísland hefur að mati nefndarinnar alla burði til að byggja upp loftslagsvænt samfélag enda skipar Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem vildu ná metnaðarfullum samningi um loftslagsmál í París. Fullgilding Parísarsamningsins nú undirstrikar þessa afstöðu Íslands og þá eindrægni sem ríkir í því þvert á flokka á Alþingi. Nefndin leggur þess vegna til að tillagan eins og hún liggur fyrir verði samþykkt óbreytt.

Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé og Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Ásta Guðrún Helgadóttir áheyrnarfulltrúi í nefndinni er einnig samþykk áliti þessu. Undir þetta rita sú sem hér stendur, Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, og hv. þingmenn Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Óttarr Proppé, Karl Garðarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.