145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að tillaga til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins sé komin til 2. umr. og það hilli undir að við munum greiða atkvæði um hana og fullgilda þannig Parísarsamninginn. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt af því mikilvægasta sem við munum gera á þessu þingi. Engu að síður er nauðsynlegt að hafa í huga að fullgilding Parísarsamningsins er fyrst og fremst bara pólitísk yfirlýsing. Sem pólitísk yfirlýsing er hún mjög mikilvæg en næsta skref er hins vegar það sem má kannski segja að sé það erfiða í þessu verkefni, þ.e. að fara í aðgerðirnar sem verða til þess að við drögum í raun úr losun. Það held ég að sé miklu erfiðara en að skrifa undir yfirlýsingu, eins mikilvæg og hún er.

Sérfræðingar hafa bent á að nú geti ríki ekki lengur leyft sér að setja athyglina á einhver einstök eða tiltekin atriði, við getum nefnt t.d. skógrækt, heldur verði að vinna á breiðum grunni og það þurfi að gera áætlanir, setja markmið og vinna á mörgum sviðum. Það verður allt að vera undir. Líkt og segir hér í nefndaráliti frá hv. utanríkismálanefnd þá liggja helstu möguleikar hérlendis á minni losun í landbúnaði, fiskveiðum og samgöngum. Þar þurfum við að hafa athyglina. Þar þurfum við að gera áætlanir. Við erum reyndar búin að setja okkur ýmsar áætlanir og nú þarf að fara að fylgja þeim eftir þannig að það dragi úr losuninni.

Svo er algert lykilatriði að öll þingmál, öll þau mál sem fara í gegn á Alþingi, verði rýnd með tilliti til áhrifanna sem þau hafa á losun gróðurhúsalofttegunda. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir setti þetta áðan í ræðu sinni í ágætt samhengi með því að nefna samgönguáætlun sem dæmi. En það er bara eitt dæmi. Allt verður að vera undir. Þetta eru gleraugun sem við sem ætlum að vera á hinu pólitíska sviði á 21. öld verðum alltaf að vera með á nefinu, sama hvaða mál við ræðum því að framtíðin er í húfi. Málið er svo miklu stærra og mikilvægara en svo að þetta megi bara vera einhver falleg orð á blaði. Þetta verður að aðgerðabinda. Við verðum að byrja strax að vinna út frá því hvernig við náum árangri.

Það kemur einnig fram að partur af Parísarsamningnum sé að þróunarríkin eigi að fá stuðning frá þróuðum ríkjum við að framkvæma þennan samning. Mér finnst það eðlilegt að þau lönd sem ríkari eru veiti öðrum ríkjum hverra íbúar búa ekki við sömu lífsgæði og við aðstoð til þess að þróunarríkin geti einnig náð markmiðum þegar kemur að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. En þau þurfa auðvitað líka að hugsa um það um leið hvernig þau geti tryggt hagsæld íbúa sinna. Ég held að það sé ágætt að við munum líka eftir þessum þætti samningsins og ábyrgð okkar sem eins ríkasta lands í heimi og að við höfum þetta í huga þegar við ræðum framlög Íslands til þróunarsamvinnu. Við þurfum að hugsa um þetta þegar við ákveðum fjármagn í þróunarsamvinnu og einnig hvers konar verkefni það eru sem við styrkjum. Þar þurfum við, í samvinnu við þessi ríki, einnig að vera með loftslagsgleraugun á nefinu.

Herra forseti. Líkt og ég sagði í upphafi fagna ég því að það líti út fyrir að Ísland sé að fara að fullgilda Parísarsamninginn. Það er rosalega jákvætt, merkilegt og gott skref en vinnan er rétt að byrja. Nú fer það erfiða að taka við.