145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér stutta tölu fyrir hönd utanríkisráðherra sem er fjarverandi.

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hv. utanríkismálanefnd hefur með einróma afstöðu samþykkt að leggja til að þingsályktunartillaga um fullgildingu Parísarsamnings Sameinuðu þjóðanna verði samþykkt óbreytt. Því leyfi ég mér að taka undir með virðulegri utanríkismálanefnd um að mikilvægt sé að ríki heims taki með ábyrgum og afgerandi hætti á þeim vanda sem steðjar að vegna loftslagsbreytinga. Parísarsamningurinn myndar ramma utan um landsákvörðuð framlög. Það er hins vegar okkar hlutverk, einstakra ríkja, að ákveða þessi markmið, lýsa því hvernig við hyggjumst minnka losun gróðurhúsalofttegunda og tilkynna markmiðin til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Íslensk stjórnvöld settu fram áætlað markmið sitt í júní í fyrra um að stefnt væri að 40% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990 í samstarfi við aðildarríki ESB og Noreg. Skuldbindingar Íslands ákvarðast í samningum milli þessara þriggja aðila sem við áætlum að ljúki á næstu tveimur árum.

Aðstæður hér á landi eru að mörgu leyti einstakar þar sem rafmagn og húshitun eru þegar með nær 100% endurnýjanlegri orku. Tækifæri til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eru þó mörg og er helst að finna í tengslum við samgöngur, fiskveiðar, landbúnað, skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.

Mig langar að skjóta hér inn í að þær hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar eru mjög athyglisverðar og langar mig sérstaklega að nefna þær hugmyndir sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi varðandi það að græn ökutæki og slíkt yrðu hreinlega gjaldfrjáls að öllu leyti þar til ákveðnum markmiðum væri náð. Mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd.

Nú er í gildi aðgerðaáætlun til ársins 2020 vegna 2. skuldbindingartímabils Kýótó-bókunarinnar og nýleg sóknaráætlun fyrir árin 2016–2018. Þar er m.a. fjallað um orkuskipti, rafbíla, skógrækt, endurheimt votlendis, matarsóun, aðlögun að loftslagsbreytingum og alþjóðleg verkefni á sviði jarðhita og landgræðslu. Fram undan er að gera aðgerðaáætlun vegna aðgerða eftir árið 2020 á grundvelli Parísarsamningsins.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að Ísland geti verið í hópi þeirra ríkja sem ná að fullgilda Parísarsamninginn á þessu ári og þannig lagt sitt af mörkum til að þessi mikilvægi samningur hljóti gildi sem fyrst á heimsvísu. Það er að sjálfsögðu okkar að láta þetta svo allt ganga upp í framhaldinu. Ég held að miðað við þann tón sem er í þingsalnum í dag ættum við að geta sammælst um það.