145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[18:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur gert víðreist á þessu kjörtímabili um lendur stjórnarráðsins. Hann byrjaði sem utanríkisráðherra, hann er landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í dag. Jafnvel þó að stutt sé til kosninga verð ég að segja, þó að ég hafi aldrei átt von á því, að ég vildi óska þess að hann yrði, áður en kemur að kosningum, líka fjármálaráðherra. Hæstv. ráðherra gaf hér mjög merka yfirlýsingu sem við sum höfum beðið eftir lengi að ríkisstjórnin gæfi. Hæstv. ráðherra sagði að það væri mjög góð hugmynd, sem hér kom fram í umræðunni, af hálfu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, að græn ökutæki yrðu gjaldfrjáls. Þarna rennur blóð Framsóknarflokksins í nákvæmlega sama æðakerfi og ég held ég megi segja gjörvallrar stjórnarandstöðunnar. Mér þykir þetta tímamótayfirlýsing og segi það eitt að lengi er von á einum. Mér finnst hæstv. ráðherra alltaf vera að batna og því meira þeim mun oftar sem hann skiptir um ráðuneyti. Ég vildi mjög gjarnan að hæstv. ráðherra kæmist í þá aðstöðu að geta hjálpað okkur sem höfum flutt um þetta tillögur árum saman. Ég lýsi fullum stuðningi við að hann reyni að seilast til valda í fjármálaráðuneytinu. Staðreyndin er nefnilega sú að það er fyrst og fremst núverandi fjármálaráðherra, sem að vísu hefur sýnt örlítinn skilning á þessu máli, sem hefur ekki viljað stíga það stóra skref sem ég sé að hæstv. atvinnumálaráðherra er nú algerlega með okkur hinum í að stíga. Hafi hann heila þökk fyrir. Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra ekki hvort það komi til greina að hann reyni að sölsa undir sig fjármálaráðuneytið heldur hvort hann hyggist með einhverjum hætti beita sér fyrir þessu fyrir kosningar og reyna að fá ríkisstjórnina í lið með sér og okkur.