145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[18:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, gjafsókn. Mig langar að staldra aðeins við það sem kom fram í máli hv. framsögumanns meiri hluta um aðkomu eða mögulega aðkomu almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og byggi þá á umsögn Landverndar, sem ég veit að hv. þingmenn í allsherjar- og menntamálanefnd þekkja mjög vel. Mig langar að óska eftir því við forseta og geri það að tillögu minni að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og um þetta verði fjallað með ítarlegri hætti, því að ég tel að hér sé verið að fara mjög óvarlega, þ.e. með því að hlusta ekki eftir þeim ábendingum sem snúast um þá staðreynd að við höfum nú þegar innleitt Árósasamninginn í íslenskan rétt. Sannarlega var það þannig að þegar sú sem hér stendur mælti fyrir þeim hluta fullgildingarinnar á síðasta kjörtímabili fór svo fyrir frumvarpinu þá í hv. umhverfisnefnd að það voru getum við sagt dregnar tennurnar svolítið úr frumvarpinu eins og það kom frá þáverandi umhverfisráðherra, þeirri sem hér stendur. Dregið var úr kæruaðildinni, möguleikanum á kæruaðildinni. Þjóðir Evrópu hafa auðvitað innleitt þetta með mismunandi hætti. Nálgunin sem ég lagði til í ákvæðum þess frumvarps var það sem heitir upp á latínu actio popularis, sem þýðir að almenningur, óháður félagasamtökum, eigi einfaldlega aðild að umhverfismálum. Það þurfi ekki að vera aðili að einhverjum umhverfisverndarsamtökum, samtökum sem skila svo og svo miklu í ársreikningum o.s.frv., þessi formlegu skilyrði væru ekki lykillinn að aðild heldur mundum við líta svo á í íslenskum rétti að almenningur ætti aðild, einfaldlega vegna þess að það varðaði alla almannahagsmuni og þá þurfi almenningur ekki að hafa bundist félagsskap til að eiga mögulega aðild að kærumálum sem þessum.

Það er ekki nákvæmlega það sem er undir hér heldur það að Landvernd telur þurfa á því að halda að frumvarpsdrögunum verði breytt þar sem Landvernd rökstyður það að ella yrði brotið á alþjóðasamningi sem Ísland fullgilti árið 2011. Þá erum við að tala um grundvöll fullgildingarinnar. Því að sannarlega, þó að frumvarpið hafi verið sett fram með svo róttækum hætti á sínum tíma og hafi ekki gengið svo langt, er um Árósasamninginn að ræða í íslenskri löggjöf.

Landvernd rökstuddi þar með að í frumvarpsdrögunum væri ekki nægilega gætt að því að almenningur hefði fullan og óskoraðan aðgang að upplýsingum um þátttöku almennings og réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Í þessu tilfelli erum við þar með að tala um að það séu bara einstaklingar sem geti notið möguleika til gjafsóknar í hefðbundnum skilningi. Auðvitað erum við ekki að tala um umhverfisrétt í þessu tiltekna máli heldur frumvarp til laga um breytingu á einkamálalögum. Ég hef ákveðinn skilning á að um þennan formlega rökstuðning sé að ræða, að Árósasamningurinn eigi ekki við í þessu tilfelli. En ég mundi vilja beina því til nefndarinnar að hún fari yfir þetta milli 2. og 3. umr. og fjalli um það hvernig hægt sé að koma til móts við þessi sjónarmið með ítarlegri hætti en gert er í nefndaráliti meiri hluta sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason mælti fyrir.

Ef við erum að tala um þau ákvæði sem hér eru rædd er verið í raun og veru að girða algerlega fyrir möguleika umhverfisverndarsamtaka til gjafsóknar. Það telur Landvernd með góðum rökum að samrýmist ekki Árósasamningnum sem varðar ekki bara umhverfismál heldur ekki síður almenna aðild að álitamálum og aðgang almennings að þeim. Landvernd rökstyður sitt mál með því að umboðsmaður Alþingis hafi um skeið haft til meðferðar kvörtun samtakanna vegna afgreiðslu innanríkisráðherra á gjafsóknarumsókn þeirra og krafið ráðuneytið í tvígang skýringa, en Landvernd rekur núna dómsmál sem varðar umhverfisvernd sérstaklega fyrir Hæstarétti, og fellst heldur ekki á þá afgreiðslu innanríkisráðuneytisins í almennum athugasemdum með frumvarpinu að eðlilegt væri að ákvæði, líkt og samtökin gera að sinni tillögu, komi inn í þennan gjafsóknarkafla einkamálalaga heldur kæmi frekar inn í sérlög á sviði umhverfisverndar. Það eru engin slík sérlög til á Íslandi sem fjalla sérstaklega um réttarfar umhverfismála fyrir dómstólum. Þess konar lagabókstafur er ekki til í íslenskum rétti sem fjallar sérstaklega um þau mál heldur fjallar umhverfislöggjöfin um bæði efnisleg atriði umhverfismála og svo líka ferli og framvindu mála í stjórnsýslunni.

Þar með, eins og kemur fram í rökstuðningi Landverndar, er mjög erfitt að átta sig á til hvaða sérlaga innanríkisráðuneytið er að vísa í þessum ummælum í athugasemdum sínum og sannarlega þannig að rökstuðningur innanríkisráðuneytisins stenst ekki að því er varðar þessa tilvísun. Það er töluvert stórt skref ef með þessari breytingu værum við, með því að gagnálykta, að samþykkja það að umhverfisverndarsamtökum yrði ókleift að öðlast gjafsókn fyrir dómi. Jafnvel þótt samtökin ættu aðild að málinu. Jafnvel þó að við séum ekki að deila um aðildina í samræmi við Árósasamninginn. Þetta er raunin í því dómsmáli sem Landvernd rekur núna fyrir Hæstarétti. Jafnvel þó að við værum að tala um umhverfismál þar sem væru mjög ríkir hagsmunir sem vörðuðu mjög marga. Vegna þess að ég þekki starf allsherjar- og menntamálanefndar og sat þar á fyrsta þingi þessa kjörtímabils og veit að þar er hver einasti þingmaður þeirrar gerðar að viðkomandi vill nálgast málin af ábyrgð og á grundvelli efnislegra raka, vil ég gera þessa tillögu og óska eftir því að málið verði tekið til nefndarinnar til að fara yfir þessi sjónarmið sérstaklega. Það getur ekki verið vilji Alþingis, sérstaklega, að ýta umhverfisverndarsamtökum frá þeim möguleika að geta notið þeirrar leiðar sem gjafsókn er fyrir dómstólum.

Þess vegna leggst Landvernd gegn samþykkt frumvarpsins óbreytts og leggur fram mjög skýra tillögu að orðalagi í breytingartillögu sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun leggja fram sem breytingartillögu milli 2. og 3. umr. Væntanlega mun þá hv. allsherjar- og menntamálanefnd taka þá tillögu til umfjöllunar á þeim fundi nefndarinnar sem fer nú í hönd eftir að þessari umræðu lýkur.