145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[18:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara að fara í stutta ræðu um þetta mál. Við ræðum hér nefndarálit með breytingartillögu um breytingu á lögum um meðferð einkamála eða skilyrði gjafsókna. Áður en ég fer í þau atriði sem ég ætlaði að ræða langar mig að taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar sem hrósaði innanríkisráðuneytinu fyrir það að færa verkefni frá ráðuneyti til sýslumanna þar sem hann hvatti önnur ráðuneyti til sömu verka. Ég tel mjög mikilvægt að styrkja þau sýslumannsembætti sem við höfum víðs vegar um landið og efla þessar starfsstöðvar og tek ég heils hugar undir orð hv. þingmanns.

Ég ætla í þessari stuttu ræðu minni að ræða einn afmarkaðan þátt frumvarpsins sem fjallað er um í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsókna.

„Það er mat meiri hlutans að þegar litið er á heimildir til takmörkunar á gjafsókn sé nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar eðlileg tekjuviðmið og beinir því til ráðuneytisins að líta til þeirra sjónarmiða við breytingu á reglugerðinni.“

Ég verð að fagna þessum orðum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og beini einnig þessum sjónarmiðum til hæstv. innanríkisráðherra og ráðuneytisins. Það má nefna í þessu samhengi að í dag mega tekjur þeirra sem sækja um gjafsókn ekki fara yfir 2 milljónir á ári sé um einstakling að ræða. Það þýðir um 166 þús. kr. á mánuði. Ef um er að ræða hjón eða sambúðarfólk eru tekjumörkin 3 milljónir. Ef þessum árstekjum væri skipt jafnt milli þessara aðila væru það 125 þús. kr. í tekjur á mánuði á mann eða samtals 250 þús. kr. í tekjur fyrir hjón. Setjum þessar tölur í samhengi við lægstu laun eða bætur í landinu í dag, fullar atvinnuleysisbætur eru 202 þús. kr. á mánuði og lægstu bætur almannatrygginga, samkvæmt nýju frumvarpi, eru 212 þús. kr. Þarna vitum við að um lágar tekjur er að ræða. Því er verulega sérstakt að það tekjuviðmið sem sett er fram um gjafsókn mála sé eins lágt og raun ber vitni.

Því er afar mikilvægt að þetta verði endurskoðað í reglugerð sem ég veit að verið er að endurskoða innan innanríkisráðuneytisins. Ég vildi eingöngu árétta það í þessari stuttu ræðu. Einnig langaði mig að minna á að ég ásamt öðrum hv. þingmönnum lagði fram tillögu hér á þinginu í haust, það er þingmál nr. 29. Það voru ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Valur Björnsson og Brynhildur Pétursdóttir, sem lögðum fram þingmál um að Alþingi mundi álykta að fela hæstv. innanríkisráðherra að endurskoða tekjuviðmið sem eru skilyrði gjafsóknar. Ráðherra endurskoðaði þau tekjuviðmið samhliða vinnu við undirbúning á frumvarpi til laga um breytingar á þeim lögum sem við ræðum um hér en bæði í framsögu hæstv. innanríkisráðherra og í því nefndaráliti sem við ræðum hér mun breytingin fara fram í gegnum reglugerð.

Mig langar, með leyfi forseta, að lesa örlítið upp úr þeirri greinargerð sem fylgir þessari tillögu. Í greinargerð með tillögunni segir jafnframt:

„Tekjumörkin sem miðað er við eru því afar lág. Þau eru raunar svo lág að umsækjandi sem býr einn þarf að hafa tekjur undir lágmarkslaunum og sé hann í hjúskap og samanlagðar tekjur umsækjanda og maka undir 3 millj. kr. á ári.“

Það þýðir að tekjur hvors um sig þurfa að vera töluvert langt undir lágmarkslaunum. Jafnframt „eru þessi tekjuviðmið langt undir neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins en samkvæmt þeim er framfærslukostnaður einstaklings sem býr einn ríflega 234 þús. kr. á mánuði án húsnæðiskostnaðar. Þessum tekjuviðmiðum reglugerðarinnar var síðast breytt í desember 2010, með reglugerð nr. 1059/2010, en þá voru þau hækkuð eins og áður segir í 2 millj. kr. og hins vegar 3 millj. kr. í heildarlaun og má telja að það hafi einnig á þeim tíma verið mjög lág viðmið. Frá þeim tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um rúm 15% en tekjuviðmið reglugerðarinnar staðið í stað. Að mati þeirra flutningsmanna sem ég taldi upp hér að framan er ljóst að taka þarf þessi viðmið til endurskoðunar ef gjafsókn á að vera raunhæft úrræði fyrir tekjulága einstaklinga.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja mikilvægt að einstaklingar geti allir sótt rétt sinn til dómstóla ef svo ber undir óháð efnahag og stöðu. Ljóst er að það er til dæmis aðstöðumunur á milli einstaklinga og fjármálafyrirtækja.

Ég vildi bara hér í þessari stuttu ræðu árétta og minna á þessa tillögu og mikilvægi þess að þessi tekjuviðmið séu endurskoðuð. Hér með hef ég komið þessum sjónarmiðum á framfæri og lýk máli mínu. Ég árétta jafnframt það sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar nefnir í sínu nefndaráliti, um mikilvægi þess að endurskoða þessi tekjuviðmið.