145. löggjafarþing — 153. fundur,  19. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[19:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ýmsu að fagna á þingi þessa dagana. Stundum koma hér fram góð mál sem er þess virði að styðja og maður verður að vera þakklátur fyrir að séu lögð fram að því er virðist í mikilli sátt. Mér þykir hafa farið ótrúlega lítið fyrir þessu máli í hinni almennu umræðu. Upp á síðkastið höfum við heyrt afskaplega mikið um nýju útlendingalögin og vissulega þau gömlu. Sú umræða hefur einkennst af fáfræði gagnvart lögunum sjálfum og málaflokknum í heild sinni. Það er svo sem ekki við öðru að búast. Fólk heldur að það sé frjálsara en það er að flytja hingað og heldur að útlendingamál almennt virki allt öðruvísi en þau raunverulega gera. Það þekkir held ég hver einasta manneskja sem hefur flutt til lands utan EES að það er erfitt, flókið, dýrt og það er alveg eins fyrir fólk utan EES sem flytur hingað.

Sú framkvæmdaáætlun sem við ræðum hér er að mörgu leyti svarið sem við ættum að gefa þegar við erum spurð: Hvað viljið þið gera þá? Það er margt fólk í samfélaginu sem gerir þá kröfu að við séum strangari og leiðinlegri við útlendinga sem vilja flytja hingað. Þegar maður hafnar því að loka landamærunum og láta eins og Ísland geti verið einangruð eyja úti í hafsauga þá er spurt: Hvað eigum við að gera þegar allt fer hér fjárans til, hvað eigum við þá að gera og hvernig eigum við að meðhöndla þetta? Svarið er: Við eigum að taka vel á móti fólki. Það er númer eitt, tvö og þrjú, að taka vel á móti fólki og vera raunsæ í málaflokknum.

Það er sorglegt að þeir gorta sig helst af raunsæi sem virðast lítinn skilning hafa á málaflokknum í heild sinni og hafa afskaplega óraunsæjar hugmyndir um hvernig beri að fyrirbyggja vandamálin og hvað þá leysa þau; láta eins og við getum haldið fólki utan landsteinana, eins og við getum hætt að bjóða upp á hælisumsóknir, eins og við getum dregið úr því að fólk vanti hæli, eða alþjóðlega vernd eins og hún heitir. Það er óraunsætt og á ákveðinn hátt, ég ætla ekki að segja barnalegt en eitthvað í líkingu við það. Það er ekki í neinum tengslum við hvaða raunhæfu leiðir eru til að takast á við þau ýmsu vandamál sem steðja að heiminum í dag, þar á meðal flóttamannavandanum og öðrum vandamálum sem leiða til fólksflutninga af hvaða ástæðu sem er, það er ýmist stríð eða hvaðeina.

Þegar við tölum um lausnir eins og þessar kemur enginn og mótmælir fyrir utan, mótmælir því að við séum að eyða peningum í þetta. Hver vegna ekki? Vegna þess að þetta er einfaldlega góð hugmynd og meira að segja þeir sem eru á móti útlendingum ættu að geta séð það. Ég ætla alla vega að túlka það þannig og ég vona að það sé þannig. Það ágæta fólk getur bara leiðrétt mig hér fyrir utan ef það vill.

Það er þó eitt í þessu máli sem ég verð að gagnrýna eins og reyndar margir sem sendu inn umsögn. Við höfum tilhneigingu til að undirfjármagna þennan málaflokk. Ég óttast að það sé líka tilfellið hér. Það er frekar dæmigert og varla fyrirfinnst sá málaflokkur að ekki sé kvartað undan fjárskorti til hans. En manni hefur sýnst að afskaplega margir finni að því að peningum sé eytt í þennan málaflokk. En þetta er fjárfesting í fólki og það er grundvallarmisskilningur að fólk sé byrði á hagkerfum — grundvallarmisskilningur. Hagkerfi er ekkert nema samansafn af fólki og þeirra efnahagslegu samskipti. Það er ekki þar með sagt að það geti ekki orðið vandamál við skyndilega fjölgun fólks, hvort sem það eru innflytjendur eða ekki. Innviðirnir þurfa til dæmis að styrkjast meðfram því. Yfirvöld þurfa að vera reiðubúin til að taka skynsamlega á málum með aðgerðum eins og þessum til dæmis. Almenningur, menningin sjálf, þarf að vera reiðubúin undir það. Ég veit að Íslendingar hafa löngum verið heldur einangraðir, svo er manni sagt þótt sumir sagnfræðingar hafi reyndar nýlega sagt mér að það sé ekki allskostar rétt. Hvað sem því líður er það (ÖS: Fjölmenningarþjóð frá landnámsöld.) — hv. þingmaður slær mig aðeins út af laginu. En það er þannig að við erum ekki í einangrun núna og við getum ekki látið eins og við verðum einangruð í framtíðinni. Við getum ekki látið eins og við getum afsalað okkur ábyrgð á því að taka við fólki. Við getum ekkert afsalað okkur þeirri ábyrgð. Spurningin er: Hvernig ætlum við að gera það skynsamlega, á raunsæjan hátt? Skynsamlega leiðin er ekki sú að loka landamærunum eða að láta eins og fólk sem þarf alþjóðlega vernd þurfi ekki alþjóðlega vernd. Við getum ekki látið eins og leiðin sé að skera niður í þessum málaflokki. Það kostar peninga að gera þetta vel. Við getum reynt að gera þetta vel. Ég veit að það er markmið þessarar tillögu að gera þetta vel; maður er með fyrirvara um fjármögnun og slíkt en sá fyrirvari á við flest mál sem kosta peninga.

Því betur sem við tökum á móti fólki sem hingað vill flytja þeim mun betra er það fyrir það fólk og líka fyrir samfélagið sjálft. Þá vantar oft einn þátt sem við stjórnmálamenn stjórnum hvað minnst, það er hvernig menningin okkar tekur við útlendingum sem hingað flytja. Ég hygg að það sé eitt af því allra mikilvægasta til að fyrirbyggja þau vandamál sem gagnrýnendur útlendinga, eins og ég ætla kurteislega að kalla þá í þessari ræðu, óttast mest, við vandamál þar sem til dæmis menningarlegur árekstur eða trúarlegur ágreiningur eða eitthvað því um líkt býr til alls konar samfélagsleg vandamál, sem getur vissulega gerst. Ég veit ekki um neinn sem er ósammála því. Ég veit bara um fólk sem vill meðhöndla það vandamál af yfirvegun og skynsemi annars vegar og hins vegar fólk sem vill meðhöndla það með því að afneita því að við þurfum að díla við það, eins og við getum ýtt því vandamáli frá okkur þannig að við þurfum ekki að taka við því og eiga við það. Það tel ég óraunsætt, það tel ég vera mistök.

Þessi þingsályktunartillaga er til þess fallin að reyna að taka vel á málunum. Ég velti því fyrir mér hvernig umræðan yrði ef fólk kæmi hingað út á Austurvöll og færi að mótmæla því að við settum peninga í það að aðstoða fólk við atvinnuleit eða mótmæla því að kenna íslensku. Varla. Það kostar peninga. Það ættu allir að vera sammála um. Það ættu allir að vera sammála um að við þurfum að eyða peningum í þetta, en spurningin hlýtur að vera á hvaða hátt. Ég hygg að við eigum að gera það með sem uppbyggilegustum hætti.

Auðvitað þarf landamæragæslu. Við erum með landamæragæslu andstætt því sem margir telja. Það eru engin áform um að leggja hana niður. Við erum í ýmiss konar alþjóðlegu samstarfi til að efla landamæragæslu andstætt því sem margir halda en ef það væri ein nálgun í þessum málaflokki sem þyrfti fjármagn til að fyrirbyggja þau vandamál sem andstæðingar útlendinga óttast, þá eru það nálganir eins og þessi; uppbyggilegar nálganir sem eru hugsaðar til að hjálpa, ekki vegna þess að við séum ofsalega góð og aðrir rosalega vondir heldur vegna þess að það er skynsamlegt. Það er raunsætt, yfirvegað og nauðsynlegt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, virðulegi forseti. Ég fagna þessu máli. Að lokum vil ég segja að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna ekki er jafnmikið talað um þetta mál og útlendingalögin sem eru sennilega misskildustu lögin í gjörvöllu landinu og er þar af nógu að taka.