145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því að tillaga um þingrof sé komin fram, það er löngu tímabært. Hæstv. ríkisstjórn er fyrir þó nokkru orðin nær óstarfhæf og ef við hefðum kosið strax í vor eins og krafa var um væri löngu komin starfhæf ríkisstjórn í landinu. En nú er tillagan komin og kosningar boðaðar 29. október og það er gott.

Við rjúfum nú þing og göngum til kosninga vegna misbrests á trausti og trúnaði milli þjóðarinnar og stjórnvalda. Við skulum ekki gleyma því hvers vegna kosningar eru haldnar fyrr en áætlað var. Við skulum ekki gleyma því að kjörtímabilið er stytt um eitt þing vegna hneykslismála tengdum fyrrverandi forsætisráðherra og reyndar fleiri ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem upp komst um í Panama-skjölunum. Fyrir hálfu ári var fjölskylda forsætisráðherra uppvís að því að geyma peninga sína í skattaskjóli og ráðherrann sjálfur sagði ósatt um málið. Í umræðum í samfélaginu þar á eftir voru spilling og skattaskjól lykilorðin og í framhaldinu einnig umræða um hvernig skattaskjól eru helst nýtt af þeim sem vilja koma peningum sínum í skjól fyrir skattinum og láta þá um leið aðra bera sinn hlut í velferðarkerfinu. Réttlát reiði braust út í samfélaginu, almenningur reis upp og mótmælti í fjölmennustu mótmælum hér á landi og krafan var: Kosningar strax. Núverandi hæstv. ríkisstjórn bauð í raun almenningi málamiðlun um kosningar nú í haust.

Það eru því ekki venjulegir tímar og kosningar fram undan ekki hefðbundnar. Alþingi nýtur lítils trausts þjóðarinnar og við þurfum að finna lausn á þeim vanda. Alþingi er jú bara verkfæri þjóðarinnar til að stýra eigin landi, við þingmenn erum ekki nema tannhjól í því ferli og okkur ber að sinna skyldum okkar vel og gæta okkar í hvívetna í orði og gjörðum. Samfylkingin mun á næstu dögum leggja fram hjartans mál félagsmanna sinna og óska eftir stuðningi landsmanna til að skapa hér heilbrigt og gott samfélag fyrir alla, óháð stétt eða stöðu. Á kjörtímabilinu hafa ákvarðanir stjórnvalda sem leggjast einkum með þeim sem standa mjög vel fyrir verið áberandi á meðan heilbrigðiskerfið er í miklum vanda og menntakerfið líka. Menn tala um góðæri en eldri borgarar eða öryrkjar hafa í það minnsta ekki notið þess í bættum kjörum eða afturvirkum greiðslum. Það er mál að linni. Samfylkingin mun leggja sig fram við að afgreiða mál í sátt og þau mál sem sátt er um á þeim stutta tíma sem eftir er. Önnur mál bíða nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar. Það er mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. forseti beiti sér fyrir því að á þessum síðustu vikum þingsins leggi þingheimur sig fram við að gera gott samkomulag milli allra flokka og þinginu ljúki á tilsettum tíma eins og ný starfsáætlun gerir ráð fyrir.