145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Okkur er öllum ljóst af hverju við göngum til kosninga á þessum óvenjulega tíma. Það er bein afleiðing þess að fyrrverandi forsætisráðherra sagði af sér eftir að hann hafði sagt ósatt um eignir fjölskyldu sinnar í aflandsfélagi, í skattaskjóli. Í raun má segja að sú afhjúpun hafi afhjúpað fyrir landsmönnum öllum þá kerfislægu mismunun sem við búum við í þessu samfélagi þar sem hinir fáu efnameiri geta nýtt sér stöðu sína til að hagnast enn meira á meðan allur almenningur lifir samkvæmt þeim leikreglum sem við höfum sett okkur sem samfélag um atvinnulíf og um hagi okkar sem fólks og einstaklinga. Það afhjúpaðist fyrir almenningi að í þessu landi búa tvær þjóðir og sú skipting byggist á misskiptingu. Um leið varð mikill trúnaðarbrestur milli stjórnmálanna og almennings og segja má að þetta mál hafi sett stjórnmálin niður sem heild. Það er mjög alvarlegt fyrir okkur sem viljum starfa innan stjórnmálanna og viljum gefa kost á okkur áfram í stjórnmálum því að verkefnið verður að byggja upp traust á stjórnmálunum, sem ekki hefur tekist, en líka að setja fram sannfærandi stefnu um það hvernig við ætlum að stefna að því og treysta það að í þessu landi búi ein þjóð sem leiki eftir sömu reglum og búi við sömu kjör, að við séum í sama bátnum og stefnum í sömu áttina sem þjóð.

Stjórnarandstaðan lagði til að kosið yrði síðasta vor. Þeirri tillögu var hafnað af ríkisstjórninni. Það var tillaga ríkisstjórnarinnar að kjósa í haust. Það var lengi dregið að koma með skýra afstöðu til þess hvenær þær kosningar ættu að vera, sem var ekki heldur traustvekjandi fyrir stjórnmálin í heild. En það er fagnaðarefni að þessi dagsetning hafi verið sett, hvað sem hverjum kann að finnast um hana, og ég er ánægð með að þessi tillaga sé komin fram þannig að hægt sé að fara að undirbúa kosningar með eðlilegum hætti. Hún er sett fram í dag eftir að þingmaður okkar vinstri grænna minnti á það raunar við upphaf þingstarfa í gær að við biðum eftir þessari tillögu og það væri langt liðið á þann tíma sem við hefðum getað haft utankjörfund standandi yfir. Ég vona að við höfum ekki haft réttinn af mörgum þeim sem þurfa að nýta sér utankjörfundaratkvæði með því að þetta komi svona seint fram.

Herra forseti. Ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og vona svo sannarlega að landsmenn muni nýta sér rétt sinn í kosningum þann 29. október og velja stjórnmálamenn og -hreyfingar sem þeir treysta til þess að tryggja að hér sé eitt samfélag og gott samfélag fyrir alla óháð því hvort menn eru aldraðir eða öryrkjar, börn eða fullorðnir, óháð því við hvað við störfum eða gerum, og velji stjórnmálamenn og -hreyfingar sem eru tilbúnar til þess að leggja eitthvað á sig til að byggja upp traust á stjórnmálunum, sem er ekki vanþörf á í lýðræðissamfélagi okkar og raunar lykilþáttur fyrir lýðræðissamfélag okkar.