145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[13:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mikið er ánægjulegt að það eigi að eyða óvissunni um hvort það verði hætt við að hætta við að hætta við að boða fyrr til kosninga. Síðast í gær sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, við mig þegar ég spurði um ákveðið mál og varð að viðurkenna að mér fyndist óþægilegt að hraða svo stóru máli í gegnum þingið án þess að það færi í umsagnarferli, og svaraði hæstv. ráðherra þannig, með leyfi forseta:

„Ef sú staða kemur upp sem hv. þingmaður nefnir hér ættum við að framlengja þetta þing. Ég held að þetta mál sé þeirrar gerðar að við ættum ekki að láta það gerast að þingið ljúki störfum án þess að hafa klárað það.“

Að sjálfsögðu fagna ég því að við vitum núna loksins með fullri vissu að það verði boðað til kosninga og þær fari fram 29. október nk. Það er mjög mikilvægt að gleyma ekki af hverju þessi staða kom upp. Það er gríðarlega mikilvægt. Hér urðu stærstu mótmæli Íslandssögunnar eftir að þjóðin var algerlega niðurlægð á alþjóðavettvangi enn og aftur vegna ráðamanna landsins. Hingað komu yfir 22.000 manns til að kalla eftir afsögn þáverandi forsætisráðherra, rúmlega 22.000 manns sem kölluðu eftir því að þessi ríkisstjórn mundi víkja.

Þingið er að klárast og við höfum verið hér töluvert lengur en rætt var um í vor þegar ríkisstjórnin nýskipaða, með nýjum forsætisráðherra, ákvað að stytta kjörtímabilið um eitt þing. Nú erum við komin frekar djúpt inn í þetta þing. Það verður kosið ekki í haust heldur í vetur. Ég hef miklar áhyggjur af því að hér verði reynt að ýta í gegn með hraði mjög stórum og flóknum málum sem í raun og veru er hægt að finna þverpólitíska samstöðu um. Ég vil því skora á þingmenn, stjórnarliðana, og ríkisstjórnina sjálfa að gefa rými til þess að við getum viðhaft vandaða lagasetningu. Mjög mörg mál eru í nefndum, sér í lagi efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég er áheyrnarfulltrúi, sem eru þannig úr garði gerð að þau eru ekki tilbúin. Það er ekki búið að álagsprófa þau með öðrum lögum, það er ekki búið að gera ráð fyrir fjármunum frá stofnunum sem eiga að framfylgja þeim lögum og ég held að það fari ekki vel á því að við förum að taka í gegn með hraði stóra málið sem eiginlega enginn hefur séð enn þá, sem lýtur að breytingum á lífeyrisréttindum. Þetta er þannig mál að ef það er tekið hér í gegn án þess að búið sé að athuga hvort það séu einhverjar villur í því eða hvort það sé almenn sátt um það í samfélaginu og að maður geti ekki átt möguleika einu sinni á því að fá álit og umsagnir hef ég verulega miklar áhyggjur af virðingu Alþingis og stöðu þess.

Ég skora á alla sem hér eru að finna leiðir til að taka þau mál sem við erum sammála um og afgreiða þau en að við látum þau mál sem á enn þá eftir að vinna vel liggja. Ég held að það sé mjög brýnt að við lærum af því sem hefur átt sér stað á kjörtímabilinu og í raun og veru á síðasta kjörtímabili líka þar sem þingmenn, gegn betri vitund, fóru að vinna hver gegn öðrum af því að hinn var ekki í rétta liðinu. Við höfum tekist á við mjög erfiða hluti í þessu samfélagi og fólk ber ekki mikið traust til okkar. Það verður því vonandi mjög ánægjulegt að sjá hvernig við ætlum að skapa traust. Við getum það vel. Eitt af því sem við getum gert er t.d. að láta þá sem ætla að kjósa í komandi kosningum vita hvað það er sem flokkarnir ætla sér að vinna saman að fyrir fram. Það er löngu tímabært að við förum að vinna eins og kollegar okkar á Norðurlöndum þar sem liggur fyrir hverjar áherslurnar eru og hvaða málamiðlanir verða gerðar fyrir kosningar. Fólk er búið að fá nóg af því að láta ljúga að sér. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á það að láta eins og einhver flokkur fái 100% fylgi. Það er ekki þannig og hefur aldrei verið, sem betur fer. Nú erum við vonandi að fara að sigla inn í tíma þar sem fólk getur unnið saman þverpólitískt að langtímaáætlunum í staðinn fyrir að það gerist eins og alltaf virðist gerast, að það sem gott var gert og unnið vel og vandað var til hjá fyrrverandi ríkisstjórn er tekið í sundur af næstu. Það er ekki gott fyrir almenning í landinu. Ég vona að við lærum af öllum þessum endalausu mistökum sem eru víst orðin viðtekin venja hér áratugum saman á Íslandi og einsetjum okkur að viðhafa öðruvísi vinnubrögð. Píratar munu leggja mikla áherslu á að það verði stefið í okkar baráttu, að reyna að fá fólk til að vinna saman að langtímaúrlausnum á heilbrigðiskerfinu, sjávarútvegskerfinu, menntakerfinu, stjórnsýslunni og ekki síst þeim vinnubrögðum sem viðgangast á hinu háa Alþingi.